Það er vissulega fagnaðarefni að Endurupptökunefnd skuli sjá ástæður til þess að dómar í Guðmundar- og Geirfinnsmálum verði endurskoðaðir. Sakborningar hafa þó ekki verið hreinsaðir af einu eða neinu ennþá enda hefur Endurupptökunefnd ekki neitt vald til þess, það er dómstóla að úrskurða um sekt eða sýknu.
Nefndin hefur reyndar ekki einu sinni vald til þess að ákveða að málin verði tekin upp aftur, hún hefur aðeins vald til þess að mæla með því. Að vísu er tekið fram í dómstólalögum að Endurupptökunefnd taki þá ákvörðun en það lagaákvæði er andstætt þrígreiningu ríkisvaldsins sem gert er ráð fyrir í stjórnarskrá. Hæstiréttur getur því sagt Endurupptökunefnd að skeina sig á þessum úrskurði, ef honum sýnist svo, rétt eins og hann gerði (að vísu með kurteislegra orðalagi) í máli nr. 628/2015.
Það er hinsvegar blessunarlega ólíklegt að Hæstiréttur vísi málinu frá og fari málið aftur fyrir dóm án þess að fleiri gögn komi fram er sýkna líklegasta niðurstaðan. Það er að segja sýkna af manndrápum. Skiljanlega hneykslar það marga að Endurupptökunefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé einnig ástæða til að taka aftur upp þann þátt málanna sem lýtur að röngum sakargiftum.
Skilyrði endurupptöku
Í 1. mgr. 215. gr. sbr. 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála er fjallað um skilyrði til endurupptöku sakamáls. Til þess að mál verði endurupptekið þarf eitthvert eftirfarandi skilyrða að vera uppfyllt:
a. fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk,
b. ætla má að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins,
c. verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess,
d. verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.
Rök Endurupptökunefndar fyrir því að taka ekki upp dóma um rangar sakargiftir eru þau að ekkert ofangreindra skilyrða sé uppfyllt. Ekki sé umdeilt að þrír sakborninga báru saklausa menn sökum og að ekki sé fram komið að þeir vitnisburðir sem leiddu til gæsluvarðhalds fjórmenninganna hafi verið þvingaðir fram.
Sýknudómur hlýtur að flokkast sem ný gögn
Hvað a-liðinn varðar er það undarleg afstaða hjá Endurupptökunefnd að líta ekki á rannsóknir á fölskum játningum og sálfræðilegt mat á sakborningum í ljósi þeirra, sem ný gögn í málinu. Ennþá undarlegra er að slíta játningar sakborninga úr samhengi við vitnisburði þeirra um aðild annarra manna sem allir reyndust saklausir.
Með því að fallast á að efni séu til þess að taka manndrápsmálin upp fyrir Hæstarétti, hlýtur Endurupptökunefnd að telja umtalsverðar líkur á því að dómfelldu verði sýknuð. Verði það niðurstaðan (sem verður að teljast sennilegt í ljósi þeirra gagna sem Endurupptökunefnd leggur til grundvallar) er mótífið fyrir því að klína sökinni á óviðkomandi menn, hvað þá að sammælast um það áður en sakborningar voru handteknir, fallið um sjálft sig. Þar með væru komin fram ný gögn sem gæfu ástæðu til endurupptöku þeirra mála sem lúta sérstaklega að röngum sakargiftum. Þannig gæti sú staða komið upp að fara þyrfti með hluta málsins aftur fyrir Endurupptökunefnd og Hæstarétt, með tilheyrandi vinnu og kostnaði, í stað þess að afgreiða þessi mál í einu lagi.
Mál Sævars
Gögn málsins gefa vísbendingar um refsiverða háttsemi af hálfu rannsakenda, svo sem að gögn hafi verið fölsuð og valdi misbeitt við rannsókn málsins. Engu að síður hafnar Endurupptökunefnd beiðni erfingja Sævars um endurupptöku málanna á þeim grundvelli. Hinsvegar er fallist á endurupptöku manndrápsmálanna á grundvelli a- c- og d-liða. En þótt nefndin fallist á að fyrir liggi vísbendingar um gallaða málsmeðferð í manndrápsmálunum, telur hún að það eigi ekki við um hina fölsku vitnisburði sakborninga um aðild fjórmenninganna. Virðist þetta að nokkru leyti byggt á því að ekki hafa fundist sannanir fyrir því að rannsakendur hafi misnotað aðstöðu sína til þess að fá Erlu Bolladóttur til þess að bera menn röngum sökum og Kristján Viðar og Sævar til að staðfesta þann vitnisburð að hluta. Það er þó ekki skortur á sönnunum sem Endurupptökunefnd ber fyrir sig í máli Sævars Ciesielski. Nefndin telur að Sævari hafi raunverulega ætlað sér að bera rangar sakir á fjórmenningana en ástæðan hafi verið sú að hann taldi Erlu stafa hætta af þeim:
Þá rakti endurupptökubeiðandi í áðurnefndu bréfi til verjanda síns að hann hafi haft í hyggju með sakaráburði sínum að tryggja öryggi dómfelldu Erlu sem rannsóknaryfirvöld hafi talið í raunverulegri hættu. Skilja má bréfið þannig að endurupptökubeiðandi hafi viljað draga framburð sinn til baka þegar fyrrnefndir þrír menn höfðu verið fangelsaðir þar sem þeirri hættu sem hann taldi steðja að dómfelldu Erlu hefði þá verið afstýrt. Að mati endurupptökunefndar geta skýringar sem varða ástæður þess að mennirnir voru ranglega bornir sökum ekki haft þýðingu við mat á refsinæmi rangra sakargifta í skilningi 148. gr. hegningarlaga. 1
Það væri kannski hægt að fallast á þau rök að sannanir um brot í opinberu starfi og/eða verulega galla á málsmeðferð skorti en Endurupptökunefnd byggir ekki á því að þær skýringar Sævars að rannsakendur hafi komið því inn hjá honum að Erla væri í lífshættu, séu ósannaðar, heldur eru forsendur hennar þær að mótífið skipti bara ekki máli og því litlar líkur á að sakargögn hafi verið rangt metin. Endurupptökunefnd telur það semsagt EKKI verulegan galla á meðferð máls að telja gæsluvarðhaldsfanga (nánar tiltekið manni sem þá hafði sætt einangrun í 42 daga) trú um að barnsmóðir hans sé í lífshættu.
Mál Erlu
Hugmynd Endurupptökunefndar um ásetning sakborninga til rangra sakargrifta er sv athugunarefni út af fyrir sig. Sakfellingu til grundvallar lá 1. ml. 1. mgr. 148. gr. almennra hegningarlaga. Ákvæðið hljóðar svo:
Hver, sem með rangri kæru, röngum framburði, rangfærslu eða undanskoti gagna, öflun falsgagna eða á annan hátt leitast við að koma því til leiðar, að saklaus maður verði sakaður um eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað, skal sæta fangelsi allt að 10 árum.
Ákvæðið felur í sér það skilyrði fyrir því að manni verði refsað, að hann sé beinlínis að reyna að fá fram rannsókn eða dóm gagnvart saklausum manni. Ásetningur er áskilinn eins og dómaframkvæmd Hæstaréttar staðfestir sbr. Hrd. 831/2014, Hrd. 632/2009, og Hrd. 306/2001. Það er því ekki refsivert að bera mann röngum sökum ef vitnið trúir því sjálft að maðurinn sé sekur.
Eftir að Erla benti á fjölda manna sem áttu að hafa verið viðstaddir, hélt hún því fram að hún sjálf hefði skotið Geirfinn. Hún hefði væntanlega ekki játað á sig manndráp nema vegna þess að hún trúði því sjálf að sá atburður sem hún lýsti hefði átt sér stað. Engu að síður heldur Endurupptökunefnd því fram að sönnunargögn í sakargiftamálinu hafi ekki verið rangt metin. Vísað er til þess að þar sem játningar um rangar sakargiftir lágu fyrir, hafi ekki verið forsendur til annarrar niðurstöðu. Þetta rímar illa við ýmsar aðrar niðurstöður nefndarinnar svosem þá að skilyrði endurupptöku máls Guðjóns Skarphéðinssonar séu uppfyllt enda þótt hann hafi ekki dregið játningu sína til baka fyrir dómi.
Það er útilokað að túlka þá afstöðu Endurupptökunefndar að gögn hafi verið rétt metin á annan veg en þann að allar líkur séu á að Erla yrði sakfelld aftur ef málið yrði tekið upp. Samkvæmt því telur nefndin að Erla hafi af ásetningi komið fjórmenningnum í gæsluvarðhald. Hvernig í ósköpunum komast menn að þeirri niðurstöðu að manneskja sem er í nógu slæmu andlegu ástandi til þess staðhæfa ranglega að hún hafi orðið manni að bana, hafi að öðru leyti verið meðvituð um ruglið í sjálfri sér? Eða að hún hafi verið í betra jafnvægi viku eftir að hún losnaði úr gæsluvarðhaldi en fjórum mánuðum síðar þegar hún felldi ranglega sök á sjálfa sig?
Mál Kristjáns
Kannski er þó athyglisverðast af öllu að Endurupptökunefnd trúir því ekki að Kristján Viðar hafi vísvitandi logið um það sem hann sagði að gerst hefði í Dráttarbrautinni í Keflavík kvöldið sem Geirfinnur hvarf og þar með þá sem hann sagði hafa verið viðstadda. Eða eins og Endurupptökunefnd orðar það sjálf:
Eins má geta þess að endurupptökubeiðandi bar um að Geirfinnur hefði beðið bana á mjög margvíslegan hátt, fallið útbyrðis, verið barinn til dauða af hópi manna, skotinn eða fallið fram af hamri. Loks bar hann um að mjög margir hefðu átt hlut að máli í ferðinni til Keflavíkur og það mun fleiri en títtnefndir fjórmenningar. Virðist endurupptökubeiðandi hafa verið svo sannfærður um framburð sinn í þessu tilliti að hann rakti orðrétt samtöl milli manna og bauðst til að vinna eið að framburði sínum í einu tilviki. 2
Kristján Viðar hafði samkvæmt þessu engan ásetning um að ljúga, hann var sannfærður um framburð sinn. Engu að síður telur Endurupptökunefnd að sönnunargögn um vísvitandi rangar sakargiftir hafi verið rétt metin! Þetta er mótsagnakennd ályktun svo ekki sé meira sagt.
Skilningsleysi á aðstæðum dómfelldu
Við getum vonandi verið sammála um að ekki sé forsvaranlegt að dæma fólk til refsingar á grundvelli þvingaðra játninga eða falskra minninga um eigin sök, sem rannsakendur bera ábyrgð á. Sú afstaða Endurupptökunefndar að sömu ástæður séu ekki efni til endurupptöku þegar vitnisburður beinist gegn öðrum, er í besta falli óskiljanleg. Í versta falli bendir hún til víðtæks skilningsleysis á aðstæðum sakborninga í málinu og áhugaleysi um rannsóknir á sönnunargildi vitnisburða.
Því miður er í úrskurðum nefndarinnar að finna athugasemd sem styður síðari möguleikann en þar segir um skýrslu Starfshóps innanríkisráðuneytisins um Guðmundar- og Geirfinnsmál: 3
… alveg er látið hjá líða að víkja að forsendum þess að fjórmenningarnir, sem sátu allt að 105 daga í gæsluvarðhaldi áður en þeim var sleppt, játuðu ekki þrátt fyrir langvarandi gæsluvarðhaldsvist. Dómfelldu, aðrir en endurupptökubeiðandi, játuðu hins vegar einhverja aðkomu að Guðmundarmálinu mjög fljótlega eins og áður gat. Sýnist þar hafa verið kjörið tækifæri til að greina trúverðugleikamat gagnvart dómfelldu með tilliti til viðmiðunarhóps. 4
Endurupptökunefnd telur semsagt farsæla bissnissmenn sem nutu töluvert mannúðlegri meðferðar en dómfelldu í þessum málum hepplega til viðmiðunar við afbrotaunglinga, á kafi í vímuefnaneyslu. Ennfremur að viðbrögð fjórmenninganna bendi til þess að betri forsendur en langvarandi einangrun þurfi til þess að saklausir menn játi á sig glæpi. Það er einstaklega hæpin niðurstaða í ljósi þess að Einar Bollason lýsti því yfir opinberlega eftir að hann losnaði úr haldi að hann hefði verið farinn að velta því fyrir sér hvort hann hefði flækst í morðmál án þess að muna það.
Vandséð er að þær forsendur sem liggja niðurstöðu um endurupptöku manndrápsmálanna eigi síður við um sakargiftamálin. Sakborningar nutu ekki í þeim málum, frekar en manndrápsmálunum, eðlilegs aðgangs að lögmönnum sínum og ekki var virt sú meginregla að horfa jafnt til atriða sem bentu til sýknu og sakleysis (ath. að það ber að sýkna ef ásetning skortir). Það er ekki til þess fallið að auka virðingu almennings fyrir réttarkerfinu að Endurupptökunefnd skuli ekki geta stutt úrskurði sína sannfærandi rökum. Því síður eykur það traust manna á dómskerfinu og stjórnsýslunni að fólk sem afrekar það að kynna sér öll gögn þessara ömurlegu dómsmála, án þess að öðlast skilning á þeim aðstæðum sem knúðu sakborninga til fullkomlega ómarktækra framburða, skuli ráða úrslitum um endurupptöku.
- Úrskurður Endutökunefndar í máli nr. 5/2015 – Beiðni erfingja Sævars Marinós Ciesielski um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 214/1978, grein nr. 3140.
- Úrskurður Endutökunefndar í máli nr. 15/2015 – Beiðni setts ríkissaksóknara um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 214/1978 til hagsbóta fyrir Kristján Viðar Júlíusson, grein nr. 2842.
- Áhrif falskra játninga eru ágætlega reifuð í 19. kafla skýrslu Starfshóps um Guðmundar- og Geirfinnsmál, sem Endurupptökunefnd hafði að eigin sögn til hliðsjónar við matið.
- Úrskurður Endutökunefndar í máli nr. 7/2014 – Beiðni Erlu Bolladóttur um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 214/1978, grein nr. 2429.