Leigjendurnir okkar skulda fjögurra mánaða leigu. Margsinnis hefur verið kvartað undan hávaða frá þeim og þau geyma húsgögn í stigaganginum. Við sendum þeim tilkynningu um riftun leigusamnings fyrir tveim vikum en þau sýna ekki á sér fararsnið og láta ekki ná í sig í síma. Getum við sjálf látið skipta um lás og flutt dótið þeirra í geymslu?

☆☆☆

Nei, þið megið ekki sjá um það sjálf að bera þau út. Almennir borgarar hafa ekki vald til að aðfarargerða. Þótt einhver skuldi þér pening máttu ekki gera fjárnám hjá honum. Leigusali hefur heldur ekki rétt til að bera leigjanda út þótt hann hafi rift leigusamningi heldur er það sýslumaður sem á að sjá um útburð.

Samkvæmt ykkar lýsingu eru skilyrði riftunar uppfyllt, sbr. 61. gr. húsaleigulaga. Það er þó ekki hægt að krefjast þess að sýslumaður beri leigjanda út án undangengins dóms eða úrskurðar. Leigusamningur veitir leigjanda lögleg umráð yfir húsnæðinu og því þarf að liggja fyrir viðurkenning á lögmæti riftunar til þess að sýslumaður geti aðhafst.

Þið þurfið því fyrst að fá aðfararhæfan dóm, eða úrskurð kærunefndar húsamála, og fá svo sýslumann til að annast útburð ef leigjandinn fer ekki af sjálfsdáðum. Þetta getur tekið heilmikinn tíma, sérstaklega ef leigjendurnir mótmæla kröfunni. Þið eigið rétt á því að leigjendurnir bæti ykkur það tjón sem hlýst af töfinni, að því tilskildu að riftunin hafi verið lögmæt og rökstudd. Best er að fá lögmann til að aðstoðar. Að því gefnu að lýsing ykkar sé rétt, er rétturinn ykkar megin og leigjandinn þarf því að greiða ykkur málskostnað.

Mynd: 66451879 © Iakov Filimonov | Dreamstime.com