Foreldrar skilja eða slíta samvistum. Þau ætla ekkert að láta það bitna á börnunum en þau eru reið og sár og samskipti þeirra eru stirð og einkennast af vantrausti og ásökunum á báða bóga. Oft enda þau í hávaðarifrildi. Þau geta ekki komið sér saman um lögheimili og umgengni barnanna og á endanum fer annað þeirra með málið fyrir dóm.

Í fyrstu fyrirtöku spyr dómarinn hvort reynt hafi verið að ná sáttum. Auðvitað hefur það verið reynt enda skylt samkvæmt lögum að undirgangast sáttameðferð og dómarinn með sáttavottorð frá sýslumannsembættinu fyrir framan sig. Af hverju spyr dómarinn þá?

Ástæðan er ekki sú að dómarinn sé úti að aka heldur sú að hann veit að það er ekkert að marka sáttameðferð hjá sýslumanni. Það er einfaldlega ekki raunhæft, hversu fær sem sáttamiðlarinn er, að ná sáttum með einum stuttum fundi þegar sársaukinn og reiðin er á því stigi að fólk sem hefur treyst hvort öðru fyrir sínum innstu hjartans hugsunum og eignast saman börn óskar þess helst að þurfa aldrei að eiga samskipti framar. En þetta er sú sáttameðferð sem fram fer hjá sýslumanni. Dómarinn veit að slík „meðferð“ er gagnslaus.

Lögmenn reyna svo að ná einhverri lendingu. Stundum eru aðilar máls ekki einu sinni með á sáttafundum heldur ræða lögmenn saman um þá lausn sem þeir telja raunhæfasta og reyna svo hvor um sig að koma vitinu fyrir umbjóðendur sína. Stundum næst dómsátt en þar sem sárindin eru óuppgerð og reiðin ólgar enn undir niðri er ekki hægt að treysta því að sú sátt haldi.

Ef vel ætti að vera þyrfti fólk sem stendur í forsjár- og umgengnisdeilum að eiga kost á faglegri sálfræði- og sáttamiðlun, sem miðar að því að skapa það traust sem mögulegt er. Slík meðferð þyrfti að vera foreldrum að kostnaðarlausu. Og já, ég á við að sá kostnaður myndi lenda á ríkinu. Á móti myndi sparast mikill kostnaður við gjafsóknir vegna dómsmála því sumir foreldrar myndu ná því markmiði að koma sér saman án þess að fara fyrir dóm. Einnig myndi sparast kostnaður við sálfræðiþjónustu fyrir börn, að frátöldum þeim kostnaði sem árlega fellur á ríkið vegna veiknda sem standa í beinu sambandi við þær óþolandi aðstæður sem langdregin og harðvítug dómsmál hafa í för með sér. Þá eru ótalin þau lífsgæði sem felast í því fyrir samfélagið allt að losna við þá erfiðleika og leiðindi sem fylgja börnum og foreldrum sem þjást vegna langvarandi átaka.

Vitaskuld er ekki hægt að hjálpa öllum en sú aðferð að spyrja fólk hvort það sé tilbúið til að fallast á kröfur hins aðilans og haka svo í reitinn „árangurslaus sáttameðferð“, sú aðferð hjálpar engum. Málsmeðferð hjá sýslumanni tekur marga mánuði og þegar sáttameðferð skilar engu taka margir mánuðir og jafnvel ár til viðbótar í biðstöðu. Á meðan vaxa börnin úr grasi í hollustuklemmu með allri þeirri vanlíðan sem því fylgir. Ég leyfi mér að fullyrða að fátt ef nokkuð er barni jafn óhollt og langvarandi stríð milli foreldra.

Mynd © Elnur | Dreamstime.com