Ekkja situr í óskiptu búi samkvæmt erfðaskrá. Hjónin áttu bæði börn frá fyrri samböndum sem ólust upp á heimilinu en í erfðaskránni er ekkert minnst á börn. Ekki er vitað til þess að kaupmáli hafi verið gerður. Hvernig er erfðaréttur barnanna í þessu dæmi?
☆☆☆
Maður á ekki erfðarétt eftir stjúpforeldri og skiptir engu máli hvort stjúptengsl stofnuðust í barnæsku eða á fullorðinsárum barnsins eða hvort það ólst upp hjá stjúpforeldri eða ekki. Stjúpforeldri sem vill að stjúpbörn erfi sig þarf að ganga frá því með erfðaskrá.
Sá sem situr í óskiptu búi hefur fullan ráðstöfunarrétt yfir eignum búsisns (en má ekki skerða þær) en hann erfir ekki makann. Undantekning frá því er ef skammlífari makinn á séreignir. Þær koma strax til skipta og ef ekki er kveðið á um annað í erfðaskrá þá erfir langlífari makinn þriðjung séreignarinnar. Sú eign verður séreign langlífari makans ef hann lýsir því yfir við sýslumann en sé það ekki gert þá rennur sá arfur inn í óskipta búinu. Til að gera eign að séreign þarf að þinglýsa kaupmála. Það er því alltaf hægt að komast að því hvort hann er fyrir hendi eða ekki.
Langlífari makinn getur ákveðið að skipta búinu ef hann vill og tekur þá sinn helming búsins og erfir auk þess þriðjung eigna skammlífari makans, nema annað hafi verið ákveðið með erfðaskrá.
Ef langlífari makinn situr í óskiptu búi til dauðadags þá fellur erfðaréttur hans niður og þar með erfa niðjar skammlífari makans (og bréferfingjar ef einhverjir eru) þann hluta búsins að fullu. Niðjar langlífari makans erfa þá hlut þess langlífari í búinu en ekki neitt af eignum skammlífari makans.
Photo 305644216 © Nadzeya Haroshka | Dreamstime.com