Ég frétti frá skyldmenni að faðir minn hefði dáið fyrir skömmu. Hann átti konu (sem ekki er móðir mín) og barn með henni. Skv. upplýsingum frá sýslumanni var búið eignalaust og skráði makinn aðeins sameiginlegt barn þeirra sem erfingja. Á lögerfingi ekki rétt á að fá að vita um dauða arfleifanda og vera skráður erfingi hans? Hefur það einhverjar afleiðingar fyrir mig að nafn mitt sem erfingja komi hvergi fram?

☆☆☆

Hvorki stjórnvöldum né aðstandendum ber nein lagaleg skylda til að upplýsa þig um andlát foreldris eða annars náins skyldmennis (siðferðisleg skylda er annað mál sem er endalaust hægt að ræða).  Í 7. gr. laga um skipti á dánarbúum kemur fram að sýslumaður eigi að leita upplýsinga hjá þeim sem tilkynnir sýslumanni andlát, m.a. um erfingja og að tilkynnanda beri að veita honum þær upplýsingar að svo miklu leyti sem hann hefur þær. Það liggur í hlutarins eðli að makinn átti að gefa sýslumanni réttar upplýsingar.

Ef búið er eignalaust þá kemur ekki til þess að erfingjar taki arf eða hafni honum og skuldir erfast ekki nema erfingjar samþykki að taka þær á sig. Í þessu tilviki hefur eftirlifandi maki brotið gegn skyldum sínum við sýslumann en ef búið var eignalaust þá hefur makinn ekki brotið gegn þér í skilningi laga þótt þetta sé ósmekkleg framkoma.

Ef eru til eignir í búinu geta erfingjar krafist einkaskipta og þurfa þá að koma sér saman um það hvernig búið eigi að skiptast. Ef er uppi ágreiningur er hægt að taka búið til opinberra skipta, þá er skipaður skiptastjóri sem sér um að skipta búinu og ganga frá því. Ef búið er eignalaust lýkur sýslumaður venjulega skiptum (það er formsatriði þótt ekkert sé til skipta). Ef erfingjar myndu óska eftir einkaskiptum við þær aðstæður myndu þeir í besta falli fá ekkert en þurfa samt að skila erfðafjárskýrslu. Líklegra er að þeir sætu þá uppi með skuldir. Og það er ekki ástæða til að skipa skiptastjóra ef búið er eignalaust og reyndar ekki hægt þar sem ekki eru þá til peningar til að greiða fyrir þjónustu hans.

Það er skiljanlegt að þér sé brugðið en þar sem búið er eignalaust breytir þetta hinsvegar engu fyrir þig hvað varðar erfðarétt og hefur engar praktískar afleiðingar, þannig að þú hefur ekki lögvarða hagsmuni af því að gera neitt í þessu.

Photo 316304442 © Manuel Milan Checa | Dreamstime.com