Dóttir mín er 14 ára, á lögheimili hjá mér og hefur verið í viku/viku umgengni. Pabbi hennar býr í öðru skólahverfi, þar sem hún á enga vini. Hún vill breyta umgengninni, aðallega af þessum félagslegu ástæðum en pabbi hennar er mjög þver og vill ekkert ræða þetta. Er hún ekki orðin nógu gömul til að ráða þessu sjálf?
☆☆☆
Það er meginregla í barnarétti að þegar teknar eru ákvarðanir sem varða velferð og hagsmuni barna, á það sem barninu er fyrir bestu alltaf að ráða ferð. Samkvæmt barnalögum og einnig samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, eiga börn rétt á að fá að tjá sig þegar hagsmunir þeirra eru í húfi, eftir því sem þau hafa aldur og þroska til og að afstaða þeirra sé tekin til skoðunar. Þetta merkir ekki að börn megi ráða einu eða neinu, Jafnvel þegar niðurstaðan er sú að fara skuli alfarið eftir óskum barnsins, þá er það alltaf fullorðna fólkið sem ber ábyrgð á ákvörðuninni.
Þegar ágreiningur um umgengni, búsetu og forsjá barna kemur til kasta sýslumannsembættanna eða dómstóla, þá er afstaða barnsins könnuð, svo fremi sem barnið hefur aldur til. Smábörn eru ekki spurð hreint út hvar þau vilji vera en það er skoðað hvernig þeim líður á hvoru heimili. Jafnfram er skoðað á hverju sú afstaða byggist. Það fer auðvitað eftir aldri og þroska barnsins hvernig er unnið úr þeim upplýsingum.
Til að skýra þetta betur er hægt að taka afgerandi dæmi. Ef fimm ára barn vill frekar búa hjá mömmu en pabba af því að hjá mömmu má spila tölvuleiki fyrir fullorðna, borða ís í morgunmat og vaka fram á nætur, þá er ekki líklegt að afstaða þess hafi afgerandi áhrif. En ef 15 ára barn vill frekar búa hjá mömmu en pabba af því að pabbi svo oft fullur og oft rifist og slegist á heimili hans, þá er líklegt að það hafi verulega mikil áhrif.
Það eru ekki til neinar skýrar reglur um að hversu þungt vægi félagslíf unglinga á að hafa þegar farið er fram á breytingar á umgengni en að því gefnu að stúlkan sé ekki í slæmum félagsskap og stundi skóla eins og vera ber, þá er líklegt að barnasálfræðingur myndi mæla með einhverjum tilslökunum. Ekki bara vegna félagslífsins heldur líka til að byggja ekki upp hjá henni kergju í garð föður síns. Það tekur óratíma að komast að í sáttameðferð hjá sýslumanni (hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu má reikna með 6 mánuðum þar til byrjað er að vinna í málinu) en það er líka hægt að leita til sjálfstæðra sáttamiðlara.
Ef faðirinn er ekki til samstarfs þá mæli ég með því að fara fram á úrskurð sýslumanns um umgengni. Úrskurður er ekki kveðinn upp nema fyrst hafi verið leitað sátta og oft næst samkomulag í sáttameðferðinni. Þú getur svo haft samband við föðurinn og óskað eftir að þið leitið sameiginlega til sjálfstæðs sáttamiðlara. Ef hann fæst til þess þá er alltaf hægt að afturkalla beiði um úrskurð. Ef hann fæst ekki til þess þá ertu allavega með beiðni í kerfinu.
Mynd 263210716 @ Dmitry Marchenko | Dreamstime.com
