Við búum í tvíbýli. Við eigum hlýðinn smáhund sem hefur alltaf getað leikið sér í garðinum. Það er engin truflun af honum og við hreinsum upp eftir hann jafnóðum. Nýlega flutti nýtt fólk á efri hæðina. Þau vilja banna okkur að vera með hundinn í garðinum. Sem þau nota aldrei. Við eigum 65% í húsinu og þar með meiri hlutann í garðinum. Við höfum boðist til að girða okkar hluta af en þau segjast eiga aðgang að öllum garðinum. Geta þau bannað hundinum að vera á okkar svæði í garðinum?

☆☆☆

Lóð fjölbýlishúss er óskipt sameign nema annað sé tekið fram í eignarskiptasamningi. Óskipt sameign merkir að allir hafa aðgang að þeim hluta eignarinnar. Þið getið því ekki skipt garðinum í ykkar svæði og svæði efri hæðar nema sérstaklega sé um það samið. Það myndi reyndar rýra verðgildi íbúðanna svo það er frekar ólíklegt að eigendur efri hæðar myndu fallast á það. Þótt þið eigið meirihluta eignarinnar hafið þið ekki ríkari afnotarétt af lóðinni eða öðrum hlutum sameignar.

Það er von að gæludýraeigendum finnist það harkalegt en því miður geta nágrannarnir krafist þess að þið haldið hundinum frá sameiginlegri lóð, jafnvel þótt hundurinn sé ekki til neinna vandræða og engin óþrif af honum. Hér gilda ákvæði laga um fjöleignarhús nr. 26/1994, 2. mgr. 33. gr. g.:

Hundar og kettir mega ekki vera í sameign eða á sameiginlegri lóð nema þegar verið er að færa dýrin að og frá séreign. Skulu þau ávallt vera í taumi og í umsjá manns sem hefur fulla stjórn á þeim. Lausaganga hunda í sameign eða á sameiginlegri lóð telst alvarlegt brot, sbr. 4. mgr.

Samkvæmt 4. mgr. sömu greinar, sem þarna er vísað til, gætu nágrannarnir svo neytt ykkur til að láta hundinn fara ef þið virðið ekki bannið við lausagöngu hundsins í garðinum. Ekki gert ráð fyrir neinum undantekningum þótt engin truflun stafi af dýrinu. Eina undantekningin varðandi reglur um fjöleignarhúsalaga um gæludýr á við um hjálparhunda fyrir fatlaða.

Mynd © Alexey Maximenko | Dreamstime.com