Ef einhleyp kona eignast barn og faðir er ekki í myndinni, má konan þá taka ákvörðun um að gefa barnið til ættleiðingar sjálf eða þarf hún samþykki einhverra yfirvalda? Gilda einhverjar aðrar reglur ef hún vill láta barnið til einhverra nákominna?

☆☆☆

Samkvæmt barnalögum er móður skylt að feðra barn sitt, enda á barn rétt á því að þekkja báða foreldra sína. Þetta gildir þó ekki ef barnið hefur verið getið með tæknifrjóvgun.

Ef faðir er „ekki inni í myndinni“ í þeirri merkingu að hann sé sæðisgjafi eða að móðirin viti ekki hverjum hún hefur sofið hjá, þá er ekkert því til fyrirstöðu að hún láti barnið til ættleiðingar. Hún þarf ekki samþykki yfirvalda til þess en kjörforeldrarnir þurfa aftur á móti að fá það staðfest að þeir uppfylli skilyrði laga. Engar sérreglur gilda um ættleiðingar til nákominna. Hvort sem þeir eru náskyldir eða algerlega ótengdir þurfa kjörforeldrar að uppfylla skilyrði laga. Skilyrðin eru í 2. gr. ættleiðingalaga. Í II kafla sérðu hvernig ferlið fer fram. 

Ef einhver sem telur sig vera föður barnsins dúkkar upp og gerir tilkall til barnsins, þá getur hann látið reyna á það fyrir dómi hvort sem barnið hefur verið ættleitt eða ekki. Það er samt ólíklegt að hann gæti fengið forsjá barns sem hefur verið ættleitt nema eitthvað mikið sé að á því heimili.