Hver er réttur þess sem er ekki trúaður og vill ekki láta brenna sig á líkbrennslustöð eða láta gafa sig í vígðri mold? Er refsivert að halda bálför á landareign fjölskyldunnar? Má dreifa öskunni yfir eigið land eða geyma hana í krukku heima? Hvað þarf að gera til að fá að jarða mann utangarðs eða í heimagrafreit?

☆☆☆

Helstu reglur um meðferð líkamsleifa

Já. það er refsivert að halda bálför heima og það er ekki hægt að fá leyfi fyrir slíkri bálför. Um meðferð á líkum gilda lög um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu nr. 36/1993. Brot gegn þessum lögum varða sektum. Samkvæmt lögunum á íkbrennsla að fara fram hjá löggiltum stofnunum. Það gilda reglur um það hvernig farið er með öskuna og hana má bara grafa í löggiltum grafreit, þannig að það má ekki grafa hana í garðinum heima eða geyma öskukerið á arinhillunni. Það er þó löglegt að dreifa ösku yfir óbyggt land eða sjó en það þarf að sækja um leyfi sýslumanns til þess.

Það er ekki hægt að fá leyfi til að dysja lík utangarðs og það er ekki einu sinni hægt að fá leyfi fyrir heimagrafreit. Í sumum kirkjugörðum eru óvígðir reitir þar sem má grafa lík, eða dreifa ösku þeirra sem ekki vilja hvíla í vígðri mold.

Rökin fyrir takmökunum á meðferð líkamsleifa

Rökin fyrir þessum lögum eru bæði trúarlegs eðlis og byggjast á sóttvarnarsjónarmiðum. Það má auðvitað deila um það hvort trúarleg rök haldi vatni í samfélagi þar sem frelsi til lífsskoðana er bundið í stjórnarskrá. Sóttvarnarrökin eru sterkari en mögulega hefur löggjafinn gengið lengra í takmörkunum en nauðsynlegt er. Víða um heim er löglegt að geyma öskuna heima og dreifa henni en í greinargerð með lögunum er ekki að sjá að nein rök séu fyrir því banni. Eins má telja furðu strangt að ekki sé hægt að fá leyfi fyrir heimagrafreitum að því tilskyldu að fagaðilar staðfesti að þeir samræmist reglum.

Sóttvarnarsjónarmiðin þó lúta ekki bara að öskunni heldur ekki síður að meðferðinni á líkinu og það er væntanlega á þeim grundvelli sem áskilið er að lík séu brennd í viðurkenndum líkbrennsluhúsum. Ef út í það er farið þá er alveg til fólk sem væri víst með að koma líkinu fyrir á bálkestinum og drífa svo í að útbúa veitingar fyrir erfidrykkjuna án þess að þvo sér á milli. Ég sé líka alveg fyrir mér að á einhverjum heimilinum myndi fólk skorta þolinmæði til að standa yfir bálinu þar til það væri algerlega uppbrunnið og kannski þætti dálítið óþægilegt ef Snati næði sér í bein. Kosturinn við svona huggulegar bálfarir úti á lóð er svo sá að menn eru hvort eð er alltaf að grilla á sumrin svo lyktin ætti ekki að trufla nágrannana.