Við búum í parhúsi og samkomulagið við þau í hinum endanum hefur verið stirt. Lóðirnar eru afgirtar og hár skjólveggur á milli. Okkur langar í heitan pott en eigum alveg eins von á að það verði notað til að búa til vesen. Þurfum við leyfi hjá nágrönnunum til að fá okkur pott sem hefur engin áhrif á réttindi þeirra? Þau byggðu pall á sinni lóð í fyrrasumar en spurðu okkur ekki álits á því, gildir þá ekki sama um okkur?

☆☆☆

Lög um fjöleignarhús gilda um parhús. Þótt um tvo séreignarhluta sé að ræða eru tilteknir hlutar hússins sameign og ekki leyfilegt að hrófla við þeim hlutum án samráðs. Þetta á t.d. við um burðarvirki hússins, sameiginlegar lagnir o.fl. Líklegt er t.d. skjólvegguinn milli lóðanna teljist til sameignar.

Ef enginn ágreiningur er um að sá hluti lóðarinnar þar sem þið ætlið að hafa pottinn teljist til séreignar ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að setja hann niður án þess að fá sérstakt leyfi hjá nágrönnum. Athugið þetta samt rækilega. Skoðið eignaskiptalýsingu og gangið úr skugga um að vatnslagnir sem yrðu notaðar fyrir pottinn tilheyri ykkar séreign því annars þurfið þið að semja við nágranna ykkar.

Athugið líka að ef eigendur eins eignarhluta fjöleignarhúss vilja gera breytingar sem hafa áhrif á aðra íbúa hússins er skylt að taka tillit til hagsmuna þeirra. Ég mæli eindregið með því að þið látið nágrannana vita af þessum áformum ykkar því jafnvel þótt þið þurfið ekki leyfi þeirra er heppilegra að vita um mögulegar mótbárur fyrirfram.

Smellið hér til að skoða Facebooksíðu Hlítar

Þótt pottar valdi ekki stórkostlegu raski gilda samt örlítið strangari reglur um þá en palla. Pallar eru ekki leyfisskyldir og heldur ekki tilkynningaskyldir. Þið þurfið ekki byggingaleyfi til að setja niður pott. Þið þurfið samt sem áður að tilkynna þá fyrirrætlun til byggingafulltrúa og megið ekki byrja á framkvæmdum fyrr en hann hefur staðfest að framkvæmdin samræmist skipulagi. Áður en þið farið að grafa skulið þið skoða byggingarreglugerð nr. 112/2012 , kafla nr. 2.3, og/eða hafa samband við byggingafulltrúa og fá leiðbeiningar.

Mynd: © Kurhan | Dreamstime.com