Þarf ég að vera orðinn átján til að meiga leigja húsnæði? Ef svo, eru þá til einhverjar krókaleiðir í kringum það?
☆☆☆
Já, þú þarft að vera lögráða til þess að gera leigusamning og lögræði öðlast fólk alla jafna við 18 ára aldur. Það á reyndar við um alla samninga fólks undir 18 ára aldri að unglingurinn verður ekki bundinn af þeim, sem þýðir að ef þú borgar ekki getur leigusalinn ekkert gert til að innheimta skuldina. Auk þess geta forsjárforeldrar þínir bannað þér að flytja þannig að það væri lítið vit í því fyrir þig að reyna að leigja húsnæði nema hafa foreldra með í ráðum.
Einfaldasta leiðin, og sú eina sem hægt er að mæla með, er sú að foreldrar eða aðrir lögráðamenn geri leigusamning fyrir þig. Þau myndu þá semja við leigusalann um að þú fengir að búa í íbúðinni en þau myndu ábyrgjast greiðslur og borga brúsann ef þú yllir tjóni á eigninni. Þetta er ekki leið fram hjá lögunum því leigusamningurinn yrði á þeirra nafni, jafnvel þótt þú myndir greiða leiguna.
Það væri líka mögulegt að fara fram hjá lögunum með því að giftast. Fólk verður nefnilega lögráða ef það gengur í hjónaband fyrir 18 ára aldur. Það er aftur á móti töluvert vesen, því þú þarft þá ekki aðeins að finna maka sem er til í ráðahaginn, heldur þarftu bæði samþykki forsjárforeldra og dómsmálaráðuneytisins. Sennilega væri auðveldara að fá foreldra þína til að ábyrgjast leigusamning en að fallast á hjónaband en auk þess geturðu reiknað með að ráðuneytið tæki marga mánuði í að svara erindinu.
Mynd: 224167333 © Iakov Filimonov | Dreamstime.com