Mig langar að hanna jólavörur sem innihalda stutta textabúta úr íslenskum jólalögum. Gefum okkur sem dæmi setningar eins og „Nú mega jólin koma fyrir mér“, „Ilmurinn úr eldhúsinu er svo lokkandi“ eða „Skyldi það vera jólahjól“. Þetta eru bútar úr vissulega höfundarréttarvörðum lögum, en nær það yfir svona takmarkaða notkun? Eru til einhver viðmið eða fordæmi? (Spurt á Facebookvegg lögfræðinörda 10. jan. 2022)
☆☆☆
Það sem þú lýsir er ekki höfundarréttarbrot. Höfundalögum er ætlað að vernda rétt höfunda til að njóta heiðursins af eigin verkum og tekna af þeim. Ef þú setur efni annarra fram sem þitt eigið þá ertu að ganga á þann rétt. Það sama gildir ef framsetning býður upp á þá túlkun að verkið sé alfarið frá þér runnið. Aftur á móti nýtur þú tjáningarfrelsis sem felur m.a. í sér heimild til að vísa til verka annarra.
Þegar þú leggur út af þekktu verki eða setur það í nýtt samhengi, ertu ekki að eigna þér það, heldur að vekja hugrenningartengsl. Slík meðferð er vísun en ekki höfundarréttarbrot. Hugleikur Dagsson hefur t.d. notað línur úr þekktum dægurlagatextum sem myndatexta án þess að gefa tilefni til þeirrar ályktunar að hann hafi skrifað textana.
Reyndar er hægt að vega að sæmdarrétti höfunda án þess að eigna sér verkið. Samkvæmt höfundalögum er óheimilt „að breyta verki höfundar eða birta það með þeim hætti eða í því samhengi, að skert geti höfundarheiður hans eða höfundarsérkenni.“ Ég veit ekki til að íslenskir dómstólar hafi tekið fyrir mál þar sem reyndi eingöngu á sæmdarrétt en árið 2011 krafðist bókaútgefandi þess að listaverk yrði fjarlægt af sýningu á þessari forsendu. Verkið hét „Fallegasta bók í heimi“ og fólst í því að eyðileggja myndskreytta bók, „Flóru Íslands“ með því að setja matarleifar á milli blaðsíðnanna og láta hana rotna.
Flórumálið hefði getað endað fyrir dómi og það væri ekki fráleitt þótt einhver þeirra höfunda sem Hugleikur hefur sótt til hefði látið reyna á sæmdarrétt sinn. Ef jólavörurnar sem þú hefur í huga eru þess eðlis að þær megi túlka sem árás á höfundinn eða ef þær stríða gegn almennu velsæmi, þá ertu kominn á grátt svæði þar sem tjáningarfrelsið og heiður höfundar vegast á.
Myndin er eftir Hugleik Dagsson