Níu manns sæta ákæru í Gálgahraunsmálinu. Glæpur þeirra er sá að óhlýðnast lögreglu. Sem vafasamt er að hafi haft nokkurn rétt til að skipa þeim fyrir.
Þótt Hraunavinir hafi verið að mótmæla allt öðrum hlutum en mótmælendurnir sem mættu í Alþingshúsið 8. desember 2008, og þótt Hraunavinir séu ekki ákærðir fyrir tilraun til valdaráns, eru nokkur atriði sem minna á nímenningamálið svokallaða.
- Í báðum tilvikum var fólk handtekið fyrir að nýta sér stjórnarskrárvarinn rétt sinn til mótmæla.
- Í báðum tilvikum er óhlýðni við lögreglu sú ástæða sem gefin er upp fyrir handtökum.
- Í báðum tilvikum sæta níu manns ákæru.
Þau líkindi sem vekja mestan áhuga minn í augnablikinu eru þó þau að í báðum tilvikum er vinsæll, þjóðþekktur maður í hópi hinna handteknu, sem af einhverjum ástæðum sem enginn skilur og allra síst hann sjálfur, sætir ekki ákæru eins og félagar hans.