Ég fékk dóm fyrir ölvunarakstur fyrir átta árum. Ég hef aldrei brotið af mér síðan, ekki einu sinni fengið hraðasekt. Nú langar mig að sækja um starf á frístundaheimili en mér skilst að vinnuveitandinn geti flett umsækjendum upp og séð öll brot. Er þetta eina brot að fara að skemma möguleika mína á vinnumarkaði?


☆☆☆

Almenna reglan er sú að dóm á ekki að tilgreina á sakavottorði ef liðin eru fimm ár frá dómsuppkvaðningu eða frá því dómþoli var látinn laus.  Venjulega getur umsækjandi sótt sakavottorð sitt á Ísland.is og skilað því með umsókn og það nægir. Það eru til undantekningar frá þessu, t.d. má atvinnurekandi sækja eldri upplýsingar um kynferðisbrot og ofbeldisbrot ef sótt er um starf við barnagæslu í heimahúsi eða barnaverndarþjónustu. Sömuleiðis má sækja upplýsingar um kynferðisbrot ef sótt er um atvinnuleyfi til leigubílaaksturs og einhverjar fleiri undantekningar eru til.

Samkvæmt þessu ætti atvinnurekandinn ekki að fá upplýsingar frá ríkinu um þennan dóm. Ef þú hefur gefið heimild til að sækja upplýsingar í málaskrá lögreglu gegnir öðru máli. Þar eru tilgreind öll tilvik þar sem þú hefur átt einhver samskipti við lögreglu, t.d. ef þú hefur tilkynnt um slys.