Ég get vel skilið þá sem afneita hættunni á því að sönnunarbyrði í kynferðisbrotamálum verði færð yfir á sakborning. Mér finnst erfiðara að skilja þá sem gera sér grein fyrir hættunni en finnst bara allt í lagi að taka áhættu á að saklausir menn séu dæmdir. Auðvitað reyna þeir sem eru fylgjandi öfugri sönnunarbyrði að gera lítið úr hættunni með innistæðulitlum fullyrðingum, t.d. þessari:
Það er óþarft að hafa áhyggjur af þessu af því að það falla nánast aldrei sektardómar í kynferðisbrotamálum.
Þetta er ein þeirra staðhæfinga sem hefur verið hamrað svo rækilega á að hún er í hugum almennings orðin að viðteknum sannindum enda þótt engin gögn renni stoðum undir hana.
Lágt hlutfall kynferðisbrotamála fer fyrir dóm
Hið sanna er að lágt hlutfall kynferðisbrota sem lögreglu eru tilkynnt fara fyrir dóm. Ég er ekki með handbærar tölur frá síðustu þremur árum. Ég hefði hugsanlega eitthvað grætt á skýrslunum sem vísað er til á þessari síðu en get ekki opnað þær. (Í þessari skýrslu má sjá yfirlit yfir hlutfall mála sem fóru fyrir dóm en ástæður niðurfellinga eru ekki sundurliðaðar) Hér má þó sjá tölur frá árinu 2008. Eitt ár segir ekki nógu mikið til að hægt sé að draga almennar ályktanir en gefur allavega einhverja hugmynd. Þetta ár fóru aðeins 35% þeirra kynferðisbrota sem kærð voru til lögreglu áfram til dómstóla. Hlutfall nauðgana sem fóru fyrir dóm var aðeins 12%.
Af hverju fara þessi mál ekki fyrir dóm?
Þetta eru sláandi niðurstöður en þegar maður rýnir betur í tölurnar sést að helstu ástæður þess að rannsókn var hætt, voru þær að brotaþoli fylgdi málinu ekki eftir eða hafnaði samstarfi, og sú að gerandinn fannst ekki.
Gerandinn finnst ekki
Árið 2008 voru kærð þrettán nauðgunarmál, þar sem engir gerendur fundust. Þrettán mál á einu ári, þar sem glæponarnir bara gufuðu upp. Er ég ein um að vilja fá skýringar á þessu? Ef það er rétt að um það bil mánaðarlega fái lögreglan tilkynningu um nauðgun, þar sem enginn gerandi finnst, þá er annaðhvort eitthvað að rannsóknarferlinu eða framburði kærenda. Jújú, það gerist í öllum málaflokkum að bófarnir finnast ekki en þetta er óeðlilega hátt hlutfall. Leggur rannsóknarlögreglan meira upp úr því að upplýsa þjófnaði og fíkniefnamál en líkamsárásir? Lögreglan þyrfti að útskýra hversvegna gengur svona illa að finna einmitt þessa tegund glæpamanna.
Svo má líka hafa í huga að þær rannsóknir sem sýna hátt hlutfall falskra nauðganaákæra (það er til nóg af þeim en ég mun fjalla um hlutfallið í öðrum pistli) sýna líka að í fölskum kærumálum er mun algengara að konan beri sakir á óþekktan mann (þ.e. mann sem er ekki til, enda tilgangurinn ekki að koma neinum í vandræði) en í kærumálum þar sem um raunverulega nauðgun er að ræða. Þetta vekur óneitanlega spurningu um hvort einhver þessarra mála sem aldrei eru upplýst vegna þess að gerandinn finnst ekki, séu einfaldlega bara rugl.
Kærandinn fylgir ekki málinu eftir
Árið 2008 kærðu 17 þolendur nauðgun en drógu svo kæruna til baka eða höfnuðu samstarfi við lögreglu. Við erum að tala um 25% þeirra sem lögðu fram kæru og 40% þeirra mála sem felld voru niður.
Skýringarnar á því að brotaþolar fylgja málum ekki eftir geta verið nokkrar. Hugsanlega upplifa þeir fjandsamlegar móttökur hjá lögreglunni. Ef svo er þarf að bæta úr því en þar sem brotaþoli á rétt á löglærðum réttargæslumanni, leyfi ég mér að draga í efa að meint andstyggilegheit lögreglunnar í garð þolenda kynferðisbrota skýri nema lítinn hluta þessara tilvika. Kannski meta einhverjir brotaþolar það svo að brotin séu ekki nógu alvarleg til þess að leggja það á sig að standa í málaferlum. Einnig er mögulegt að einhverjar þessara kvenna séu vegna veikinda, slæmra félagslegra aðstæðna eða annarra vandamála, illa í stakk búnar til þess að fylgja nauðgunarkærum eftir. E.t.v. eru margar fleiri skýringar og eflaust væri hægt að veita fleiri konum stuðning til að fylgja kærunum eftir.
En svo er líka hugsanlegt að einhverjar þessara kvenna hafi dregið kærurnar til baka eða látið málin fjara út, vegna þess að þær höfðu í raun borið menn röngum sökum og vildu ekki ganga svo langt að koma þeim í fangelsi. Eða þær vissu að framburður þeirra var of vafasamur til að þær gætu staðið á honum og vildu frekar draga sig til baka en að éta ruglið ofan í sig?
Af hverju ætti löggan að standa með nauðgurum?
Ég játa, ég er tilbúin til að trúa slælegum vinnubrögðum, jafnvel hreinum og klárum afglapahætti upp á lögregluna. Ég er hinsvegar ekki tilbúin til að trúa því að lögreglan haldi vísvitandi hlífiskildi yfir kynferðisbrotamönnum. Það er nefnilega ekkert sem bendir til þess að lögreglumenn hafi minni óbeit á kynferðisofbeldi en hver annar.
Ég vil fá skýringar á þessu lága hlutfalli kærðra nauðgana sem fer fyrir dóm. Ef skýringarnar liggja að einhverju eða öllu leyti í kvenfjandsamlegu rannsóknarferli eða áhugaleysi á þessum málaflokki, þá á að laga það en fljótt á litið virðist nú sem skýringarnar liggi ekki síður hjá þolendunum sjálfum en í rannsóknartregðu löggunnar.
Eru dómstólar of tregir til að sakfella?
En hvað þá með dómana sjálfa? Er það rétt að sektardómar í kynferðisbrotamálum heyri til undantekninga?
Ég hef ekki fundið nýlega íslenska rannsókn sem gefur gott yfirlit yfir hlutfall sektar- og sýknudóma. Þó er komið inn á það í þessari gömlu skýrslu. Samkvæmt henni féllu 23 dómar nauðgunarmálum, frá júlí 1997 og til ársloka 2001 þar af var sakfellt í 11 málum en sýknað í 9 tilvikum.
Ég skoðaði sjálf yfirlit kynferðisbrotadóma frá janúar 2009 og fram til dagsins í dag. Þetta er alls ekki nákvæm könnun, ég sló bara inn „kynferðisbrot“ í leitina í dómasafninu og taldi sektar- og sýknudóma. Þetta er mjög ónákvæm aðferð, vel má vera að einhverjir dómar komi ekki fram á þennan hátt og ég ætla að biðja lesendur þess lengstra orða að hafa í huga að ég er aðeins að leita að vísbendingu, ekki að setja fram rannsóknarskýrslu.
Niðurstaðan er þessi: Ég fann samtals 109 dóma í kynferðisbrotamálum frá 2009 og fram til þessa dags. Ég tók öll kynferðisbrot sem ég fann; nauðganir, misneytingu, barnaklám, blygðunarbrot, vændiskaup og hórmang. Í 83 tilvikum féll sektardómur. Í 23 tilvikum var ákærði sýknaður. Í þremur tilvikum var ákærði sakfelldur að hluta en sýknaður af einhverjum ákæruatriðum. Ég hef ekki skoðað þessa dóma, aðeins yfirlitin á netsíðunni og þetta er áreiðanlega flóknara, t.d. líklegt að í fleiri dómum séu ákærðu sýknaðir af einhverjum þáttum ákæranna. En vísbendingu gefur þetta vissulega og niðurstaðan er nei, það heyrir ekki til undantekninga að sektardómar falli í kynferðisbrotamálum á Íslandi, þvert á móti er það mjög algengt.
Hvort er skynsamlegra kenna réttarkerfinu um eða leita betri skýringa?
Það er eitthvað athugavert við samfélag þar sem 68 nauðganir eru kærðar en aðeins 8 fara fyrir dóm. Það er þó verulega mikil einföldun að skella skuldinni á dómskerfið. Ég efast ekki um að dómskerfið þarfnast endurbóta ef ekki gjörbyltingar en það er allavega ekki hlutfall sektardóma sem er vandamálið.
Ég hef oft heyrt þá skoðun, bæði í ræðu og riti að réttarkerfið sé „karllægt“ og þolendum kynferðisbrota fjandsamlegt. Ég hef hinsvegar ekki heyrt neinn útskýra þetta með öðru en staðhæfingum um viljaleysi lögreglu til að vísa málum áfram og viljaleysi dómara til að sakfella nauðgara. Þessar fullyrðingar eru í skársta falli vafasamar og ég hef hvergi rekist á nein gögn sem styðja þær. Ef einhver sem les þetta veit af slíkum gögnum, þætti mér vænt um að fá ábendingu (þ.e. ábendingu um hvar þau sé að finna, ekki fullyrðingar um að rannsóknir sýni eitthvað sem þær sýna svo alls ekki.)
Ef okkur er alvara með að koma lögum yfir fleiri kynferðisbrotamenn, þá þurfum við að skoða frekar þessi 70% niðurfelldra mála þar sem konurnar ýmist sýna engan áhuga á málinu sjálfar, eða ofbeldismennirnir finnast ekki. Ef kemur í ljós að skýringin sé vond vinnubrögð lögreglu, þá og þá fyrst, getum við rætt um karllægt réttarkerfi. Í augnablikinu stendur sú kenning á brauðfótum.
Að síðustu bendi ég áhugasömum á að kynna sér þessa skýrslu þar sem verklagsreglum lögreglunnar í nauðgunarmálum er nákvæmlega lýst. Hún er gömul og vel má vera að eitthvað hafi breyst en ef þau vinnubrögð sem þarna er lýst eru raunverulega virt, þá liggur vandinn svo sannarlega ekki hjá lögreglunni.