Samkvæmt fréttum Vísis hefur lögreglan opnað vef þar sem brotaþolar kynferðisbrota geta m.a. fylgst með stöðu rannsóknar. Þetta er mikil réttarbót og tímabær enda eiga brotaþolar lögum samkvæmt rétt á upplýsingum um gang rannsóknar, og að henni lokinni eiga þeir að einhverju marki að fá aðgang að gögnum. Það er líka ánægjulegt að fá enn eina staðfestinguna á því að fullyrðingar um sérstaka fjandsemi réttarkerfisins gagnvart þolendum kynferðisbrota eiga meira skylt við áróður en þann raunveruleika sem við lifum við í dag.

Enn sem komið er eru það eingöngu þolendur kynferðisbrota á höfuðborgarsvæðinu sem geta fengið upplýsingar um stöðu mála sinna í gegnum vefinn en unnið er að því gera fleiri mál aðgengileg. Væntanlega kemur þá að því að fólk á landsbyggðinni og fólk sem hefur slasast og jafnvel misst heilsuna í kjölfar líkamsárásar fái sömu þjónustu. Þess er þó ekki að vænta að aðstandendur þeirra sem falla fyrir hendi annarra verði þeirra á meðal enda eru þeir að mati íslenskra dómstóla einfaldlega réttlausir.

Upplýsingaréttur aðstandenda látinna brotaþola enginn

Jafnvel þótt vefurinn fíni verði einhverntíma opnaður þolendum brota gegn lífi og líkama er ekki við því að búast að aðstandendur þeirra sem deyja í kjölfar líkamsrásar eða vegna saknæmrar háttsemi opinberra starfsmanna fái aðgang að vefnum. Landsréttur hefur nefnilega úrskurðað að aðstandendur eigi ekki rétt á lögmannsaðstoð á kostnað ríkisins þar sem aðeins hinn látni geti talist brotaþoli. Af því leiðir að aðstandendur eiga heldur ekki rétt á því að fá að fylgjast með gangi rannsóknar.

Mín fjölskylda sá fyrst í fjölmiðlum að fallist hefði verið á dómkvaðningu matsmanna vegna meðferðar lækna á móður minni á HSS. Það sama á við um fréttir af því að einnig hafi verið fallist á dómkvaðningu matsmanna vegna hjúkrunar hennar. Við fréttum það af tilviljun úti í bæ að lögreglunni hefði verið synjað um farbann yfir einum sakborninga. Það er ekki hægt að ásaka lögregluna því við eigum einfaldlega ekki rétt á upplýsingum frá henni.

Við fréttum það líka af tilviljun úti í bæ að læknirinn sem bar ábyrgð á meðferð móður okkar á HSS væri við störf á Landspítalanum þrátt fyrir að hafa verið sviptur starfsleyfi. Eðlilega, því hvorki landlæknir né Landspítalinn bera neina upplýsingaskyldu gagnvart aðstandendum þeirra sem grunur leikur á að hafi látist af völdum heilbrigðsisstarfsfólks. Okkur verður heldur ekki tilkynnt það þegar læknirinn verður látinn taka pokann sinn enda ekkert í lögum sem segir að okkur komi málið við.

Úrskurður Landsréttar hefur verið borinn undir Mannréttindadómstól Evrópu en ekki er enn komið svar um hvort málið verði tekið fyrir.

Mynd 97767287 /© Matthew Kay | Dreamstime.com