Í umræðum um mál Egils Einarssonar sér maður auk spekúleringa um að rök ríkissaksóknara séu hugarburður Egils, fullyrðingar um að réttarkerfið hafi brugðist, að það sé svo erfitt fyrir þolendur að ganga í gegnum kæruferli að það sé útilokað annað en að Egill og Guðríður séu raunverulega sek um nauðgun.Kerfi bregðast. Heilbrigðiskerfið, menntakerfið, Útlendingastofnun … Auðvitað bregst réttarkerfið eins og önnur kerfi og lögreglan gerir svo sannarlega mistök. Reynslusaga Maríu Lilju er t.d. hróplegt dæmi um mál þar sem lögreglan hefur ekki farið eftir reglum því lögreglunni er skylt að leiðbeina þeim sem tilkynna brot og það er algerlega óþolandi að málum sé vísað frá í gegnum síma. Ég hvet Maríu Lilju og aðrar konur sem hafa þessa reynslu að kæra þessi vinnubrögð því reglurnar eru í lagi, það þarf hinsvegar að fara eftir þeim svo þær virki.
Ég sé fyrir mér marga möguleika á mistökum í réttarkerfinu og kannski eru einhverjir kerfislægir gallar til staðar. En það er ekki málefnalegt að hrópa bara réttarkerfið brást. Til að hægt sé að bæta galla réttarkerfisins svo aðrir sem kæra kynferðisbrot lendi ekki í því sama, þarf að koma fram hvernig réttarkerfið bregst í þessum málum. Ég kalla hér með eftir skýringum á hví hvernig réttarkerfið brást stúlkunni.
- Var henni neitað um réttargæslumann?
- Spurði lögreglan hana spurninga sem ekki eru málinu viðkomandi?
- Sýndi lögreglan á einhvern hátt óviðeigandi framkomu?
- Var rannsókn ábótavant?
- Var ekki tekið tillit til læknaskýrslu?
- Var ekki aflað gagna frá símafyrirtækjum?
- Var leigubílstjórinn ekki látinn gefa skýrslu?
- Voru vinkonur stúlkunnar sem hittu hana fljótlega eftir atburðinn ekki látnar gefa skýrslu?
- Voru hin kærðu ekki yfirheyrð?
- Leitaði lögreglan ekki skýringa á því hvernig sokkabuxurnar hefðu rifnað?
- Bendir eitthvað til þess að ríkissaksóknari hafi ekki skoðað gögnin eða sé hlutdrægur?
- Fór ríkissaksóknari ekki að lögum?
Það er ekkert ótrúlegt að einhver mistök séu gerð í rannsókn sakamáls og þótt sex mánaða rannsókn ætti að duga til þess að tryggja faglega niðurstöðu er sá möguleiki alltaf til staðar. Komi í ljós að mistök eða hrein og klár afglöp hafi átt sér stað, á að sjálfsögðu að endurskoða málið. Hin staðhæfingin, að það sé bara ekki inni í myndinni að fólk leggi á sig kæruferli nema upplifun þess samræmist raunveruleikanum er öllu ótrúlegri.
Og reyndar er ekkert vafamál að maðurinn er sekur (og má þá einu gilda hvernig ríkissaksóknari metur gögnin) – ef við notum þá skilgreiningu sem fylgjendur öfugrar sönnunarbyrði vilja ná fram, þ.e. skilgreininguna „nauðgun er það sem brotaþoli upplifir sem nauðgun.“ En við skulum þá líka athuga að stúlkan upplifði ekki bara nauðgun, hún upplifði líka símtal við leigubílstjóra sem enginn staðfestir að hafi átt sér stað, hún upplifði sms sem koma ekki fram á símaskýrslum.