Amma mín sat í óskiptu búi eftir afa. Mamma og systir hennar voru á barnsaldri þegar afi dó. Amma giftist öðrum manni tveim árum síðar og þau eignuðust saman son, auk þess sem maðurinn gekk dætrum ömmu og afa í föðurstað. Seinni maðurinn deyr svo og amma situr í óskiptu búi eftir hann. Nú er amma fallin frá og þá heldur sonurinn því fram að systur hans eigi bara að erfa ömmu, með honum en að hann eigi auk þess að fá helminginn af dánarbúinu sem eini erfingi föður síns. Hvað varð um arfinn eftir afa og eiga dæturnar ekki rétt á arfi eftir stjúpföður sinn sem ól þær upp frá leikskólaaldri? Er best fyrir mömmu og systur hennar að setja búið í opinber skipti fyrst svona leiðindi eru komin upp?
☆☆☆
Þegar langlífari maki sem situr í óskiptu búi giftist aftur, fellur heimild til setu í óskiptu búi niður. Sá/sú sem hafði búsetuheimild á þá að gera búið upp og greiða öðrum erfingjum út arfshluta sína eftir hinn skammlífari. Amma þín hefði þannig átt að borga dætrunum út föðurarf áður en hún giftist aftur.
Svo virðist sem á árum áður hafi fólk komist upp með að lýsa því yfir við sýslumann að búið væri að skipta búinu, sitja svo á arfi barnanna sinna og draga hann inn í annað bú. Þetta hefur sjálfsagt verið gert með hagsmuni barnanna fyrir augum því það var mjög erfitt á þeim tíma að vera einstætt foreldri og óvígð sambúð var litin hornauga. Sennilega hefur amman ætlað að gera föðurarfinn upp við dæturnar þegar þær flyttu að heiman eða bara haldið að það væri ekkert því til fyrirstöðu að gera upp við þær þegar hún félli frá.
Börn eiga ekki rétt á arfi eftir stjúpforeldra nema hafi verið kveðið á um það í erfðaskrá. Amma þín viðist ekki hafa gert upp við dætur sínar. Hún hefur þannig brotið gegn rétti þeirra, sjálfsagt í góðri trú um að hún væri að gera það sem þeim væri fyrir bestu. Hennar brot gegn dætrum sínum eru ekki mál seinni maka eða hans erfingja, þannig að það er rétt hjá bróður þeirra að samkvæmt erfðalögum er bara eitt dánarbú sem verður gert upp, hvort sem það er gert með einkaskiptum eða opinberum skiptum.
Ég mæli ekki með opinberum skiptum á þeirri forsendu að dæturnar vilji frá föðurarf eða arf eftir stjúpföður því þær eiga bara einfaldlega ekki þann rétt. Lögin eru ekki endilega sanngjörn en skiptastjóri og dómstólar verða að fara eftir lögum. Það eru meiri líkur á að þær fái einhverja leiðréttingu með samkomulagi. Opinber skipti eru auk þess fokdýr og langt frá því að vera til þess fallin að draga úr leiðindum.
