Ég þekki mann sem vill búa á Íslandi en á ekki möguleika á að fá dvalarleyfi til langframa, hvað þá ríkisborgararétt. Hann er frá landi sem er talið „öruggt“ þótt mannréttindasamtök séu stöðugt að benda á hið gagnstæða. Það er ekkert á milli okkar og verður aldrei en ég er að hugsa um hvort ég geti bjargað honum með því að giftast honum. Er einhverju að tapa við það að láta á það reyna?
☆☆☆
Það er ekki refsivert að stofna til málamyndahjónabands. Engu að síður er það lögleysa sem getur leitt til þess að réttur sem stofnast á þeim grundvelli falli niður. Hjón verða að búa saman til þess að veita megi ríkisborgararétt út á hjúskapinn. Í lögum um ríkisborgararétt er tekið fram að veita megi ríkisborgararétt eftir fjögurra ára búsetu í landinu ef umsækjandi er „í hjúskap með íslenskum ríkisborgara og samvistum við hann“. Sömuleiðis kveður 7. gr. útlendingalaga á um að makar skuli hafa fasta búsetu á sama stað stað til þess að sambúð geti orðið grundvöllur dvalarleyfis.
Það er líka hægt að sækja um ríkisborgarrétt á grundvelli skráðrar sambúðar sem staðið hefur í fimm ár eða lengur. Sambúð felur ekki í sér jafn miklar fjárhagslegar skuldbindingar og hjúskapur. Hættan á óþægilegum spurningum frá útlendingastofnun er þó síst minni þegar um sambúð er að ræða.
Þótt þú eigir ekki á hættu refsingu fyrir að hjálpa manni á þennan hátt er rétt að benda á að maðurinn getur misst dvalarleyfið ef það kemst upp. Hjónaband felur auk þess í sér persónulegar og fjárhagslegar skuldbindingar. Áður en þú tekur slíka ákvörðun skaltu því hafa nokkur atriði í huga:
Persónuleg skuldbinding
- Hjón þurfa að eiga sama lögheimili. Þótt þú búir ekki með manninum ertu bundin. Þú getur t.d. ekki flutt úr landi nema taka hann með þér eða láta amk líta út fyrir það.
- Þú getur ekki hafið sambúð við annan mann. Ef þú eignast kærasta þarf það helst að fara leynt. Ef vinir þínir tala um ykkur sem par á samfélagsmiðlum eða ef þið komið fram sem par á opinberum stöðum getur það vakið áhuga Útlendingastofnunar. Hvern ætlar þú að taka með þér í brúðkaup vinkonu þinnar eða á árshátíð í vinnunni?
- Þótt Útlendingastofnun liggi ekki beinlínis á gluggunum til að tékka á því hvort þið sofið saman geturðu gert ráð fyrir að vera undir ákveðnu eftirliti ef grunur vaknar um málamyndahjónaband. Þið getið lent í því að vera yfirheyrð um hluti sem ætla má að hjón viti hvort um annað. Stofnuninni gæti þótt áhugavert ef „maðurinn þinn“ veit ekki hvar þú ólst upp og hvort þú notar mjólk í kaffið. Eins ef þú veist ekki hvaða sjónvarpsefni hann horfir á eða hvað hann á marga bræður.
- Þar sem maðurinn á lögheimili hjá þér fær hann enga fyrirgreiðslu varðandi húsnæði. Ef hann missir húsnæðið gætir þú setið uppi með hann þar til hann fær aðra íbúð. Það getur orðið vandamál því hann getur ekki þinglýst leigusamningi og sótt um húsaleigubætur. Hann gæti líka þurft að gefa Útlendingastofnun skýringar á því hversvegna kvæntur maður þurfi að búa annarsstaðar en hjá konunni sinni.
- Ef hann slasast eða veikist alvarlega ert þú nánasti aðstandandi. Heilbrigðisstarfsfólk og félagsmálayfirvöld munu vænta þess að þú takir á þig ábyrgð og umönnun eins og flestir makar.
Fjárhagsleg skuldbinding
- Hjón bera framfærsluskyldu hvort gagnvart öðru. Tekjur mannsins geta því haft áhrif á rétt þinn til greiðslna úr opinberum sjóðum. Ef löglegur eiginmaður þinn er atvinnulaus getur það haft áhrif á möguleika þína á greiðslumati og lánshæfi því þú þarft að sýna fram á að tekjur þínar dugi ykkur báðum til framfærslu. Ef þú missir vinnuna eða veikist er hann framfærsluskyldur gagnvart þér. Það getur aftur haft áhrif á bótarétt þinn ef hann hefur góðar tekjur.
- Hjón eru einnig ábyrg hvort fyrir annars skattgreiðslum. Ef maðurinn safnar skattaskuldum á meðan þið eruð gift getur þú ekki losnað undan þeim með því að skilja við hann.
- Hjónaband felur í sér gagnkvæman erfðarétt. Ef þú fellur frá erfir hann þriðjung eigna þinna. Þú getur gert erfðaskrá en þú mátt aðeins ráðstafa þriðjungi eigna þinna á þann hátt. Hann fær þriðjung þess sem eftir stendur, verðmæti sem annars kæmu í hlut barna þinna ef þú átt einhver, en annars foreldra eða systkina. Erfingjar þínir gætu fengið þeim rétti hnekkt með því að sýna fram á að hjónabandið hefði verið málamyndagerningur en þessi aðstaða býður semsagt upp á heilmikið vesen.
- Þegar maðurinn fær loksins ríkisborgararétt og þið skiljið að lögum þá gilda ákvæði hjúskaparlaga um búskipti. Eignir sem myndast á hjúskapartímanum koma til sameiginlegra skipta nema þið gerið kaupmála þar sem girt er fyrir það.
Því miður hillir ekkert undir opnun landamæra eða einu sinni raunhæfari skilgeiningu á því hvar fólk teljist búa við öryggi. Það er skiljanlegt að fólk í neyð og þeir sem vilja koma til hjálpar leiti leiða til að fara í kringum lögin en það getur auðveldlega komið fólki í koll. Ef þið ætlið að fara þessa leið þá er skráð sambúð minni áhætta fyrir þig. Ef þú ert ekki tilbúin í margra ára skuldbindingu gætir þú staðið frammi fyrir því að þurfa að slíta hjónabandi eftir að maðurinn er búinn að brenna allar brýr að baki sér.