Sigríður Andersen skýrir tregðu dómsmálaráðuneytisins til að afhenda gögn um mál Roberts Downey með því að sú ákvörðun hafi verið tekin „lögum samkvæmt“ (sjá viðtal við dómsmálaráðherra í þessu myndbandi, einkum frá mín 4:35). Í beinu framhaldi segir hún síðan að Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi „fengið málið til úrskurðar“ og að nefndin hafi fallist á það álit ráðuneytisins að í gögnunum sé að finna persónulegar upplýsingar sem eigi að fara leynt.

Þetta er skýrt dæmi um staðreyndaförðun. Ekki bein ósannindi en hægt að skilja á þann veg að ráðuneytið hafi leitað álits úrskurðaraðila og fengið staðfestingu á ákvörðun sinni. Svo er ekki enda er það ekki hlutverk Úrskurðarnefndar um upplýsingamál að þjónusta ráðuneytið eða veita því lögfræðilega ráðgjöf, heldur að skera úr um ágreining að kröfu þeirra sem synjað er um upplýsingar. Þetta kemur skýrt fram í 20. gr. upplýsingalaga.

Í ljósi þess að afgreiðsla ráðuneytisins á gagnabeiði fjölmiðla um uppreistarmál lyktar af leyndarhyggju er full ástæða til þess að láta dómsmálaráðherra víkja. Forsætisráðherra gerði engann reka að því að hreinsa til í ráðuneytinu og sú ákvörðun Bjartrar framtíðar að slíta ríkisstjórnarsamstarfi væri í því samhengi rökrétt og skiljanleg.

Það er hinsvegar augljóst hverjum þeim sem fylgist með fjölmiðlum að það sem í raun felldi ríkissjórnina var ekki viðleitni dómsmálaráðherra til að leyna upplýsingum, heldur sú staðreynd að faðir forsætisráðherra gerði barnaníðingi greiða. Bjarni Benediksson geldur ekki sinnar eigin framgöngu eða samstarfsmanna sinna í ríkisstjórn, heldur geldur hann gjörða föður síns, sem koma stöðu hans sem forsætisráðherra ekki við.

Ef meðmælabréf hins valinkunna föður hans hefði ekki komið fyrir almenningssjónir væri ríkisstjórnarsamstarfið ekki í neinni hættu. Björt framtíð hefði áfram umborið það leynimakk, valdhroka, ættbálkahyggju og spillingu sem einkennir Sjálfstæðisflokkinn. Slíkt framferði mun seint ganga fram af landanum þegar sá flokkur á í hlut, eins og best sést á því að fylgi flokksins jókst í kjölfar Panamahneykslisins. Sá skandall nægði Bjartri framtíð ekki til að hafna ríkisstjórnarsamstarfi. Höfum það í huga þegar gengið verður til næstu Alþingskosninga.