Hvað er hægt að gera ef eldri borgari eða sjúklingur er ófær um að sjá um sín mál, t.d. að selja íbúð og sækja um á hjúkrunarheimili, en líka ófær um að gefa einhverjum öðrum umboð til þess?

☆☆☆

Það fer eftir því hvort viðkomandi er ófær um að taka ákvörðunina eða bara ófær um að undirrita umboð.

A) Ófær um að taka ákvörðun

Ef einhver er vegna heilabilunar eða geðrænna sjúkdóma ófær um að taka upplýsta ákvörðun, þá getur lögræðissvipting verið nauðsynleg. Maki eða annar náinn aðstandandi getur venjulega tekið ákvarðanir varðandi dagleg fjárútlát og ýmislegt sem varðar umönnun sjúklings án þess að komi til lögræðissviptingar. Lögræði skiptist í sjálfræði og fjárræði. Ef þarf að taka stórar ákvarðanir eins og að selja fasteign þarf einhver annar að fara með fjárræði. Ef sjúklingur þarf nauðsynlega á sólarhrings umönnun en neitar að þiggja aðstoð þá getur sjálfræðissvipting verið eina úrræðið. Hjá fólki sem er mjög skert getur verið þörf á hvoru tveggja.

Til að fá lögræðissvptingu þarf að liggja fyrir vottorð læknis um að viðkomandi sé ófær um að annast sín mál. Sýslumaður kveður upp úrskurð um lögræðissviptingu (sviptingu sjálfræðis, fjárræðis eða hvort tveggja) og skipar ráðsmann eða lögráðamann. Sá sem tekur það að sér á samt ekki að geta valsað með eignir þess sem sviptur er fjárræði því hann lýtur eftirliti sýslumanns og þarf samþykki hans fyrir stórum ákvörðunum eins og fasteignaviðskiptum.

Sýslumaður gefur frekari upplýsngar. Hér eru eyðublöð sem þarf að útfylla.

B) Líkamlega ófær um að undirrita samþykki

Ef viðkomandi vill gefa öðrum umboð til að annast sín mál að öllu leyti eða varðandi tilteknar ákvarðanir en er líkamlega ófær um að undirrita umboðið þarf ekki lögræðissviptingu. Í því tilviki er hægt að fá lögbókanda til að hitta manninn og undirrita staðfestingu á því að hann/hún skilji og samþykki efni umboðsins. Þú þarft að hafa samband við sýslumann til að fá lögbókanda. Þú finnur nánari upplýsingar hér.

Mynd: © Fizkes | Dreamstime.com