Um daginn skrifaði ég pistil sem olli miklum titringi enda þótt flestir sem hneyksluðust á honum segðust vera mér sammála um það sem skiptir máli, þ.e. að ekki megi færa sönnunarbyrðina í kynferðisbrotamálum yfir á sakborning. Gagnrýnin snerist aðallega um að áhyggjur mínar væru ekki bara óþarfar, heldur fráleitar, gott ef ekki bara stórkostlega móðgandi.
Ég lofaði lesendum fleiri pistlum um málið og hef þegar skrifað grein þar sem fyrstu tvær staðhæfingarnar um vitleysuna í mér, eru teknar fyrir.
LÖGIN LEYFA ÞAÐ EKKI?
Þriðja röksemdin fyrir því að engin ástæða sé til að ræða þetta er eftirfarandi:
3. Það er engin hætta á að sönnunarbyrðinni verði hnikað yfir á sakborning, af því að hvergi í hinum vestræna heimi gilda lög sem viðurkenna öfuga sönnunarbyrði.
Ég kom reyndar inn á þetta í fyrstu greininni. Auðvitað viðurkenna lögin ekki bókstaflega öfuga sönnunarbyrði. Það myndi ofbjóða réttlætiskennd almennings. En bókstafur laganna er eitt og framkvæmd þeirra önnur. Bandaríkjamenn viðurkenna ekki pyntingar. Samt sem áður viðgangast í fangelsum Bandaríkjamanna aðgerðir sem flestir Íslendingar myndu flokka sem pyntingar, gagnvart þeim sem eru grunaðir um hryðjuverk. Þær heita bara ekki pyntingar, heldur játningahvetjandi aðgerðir. Bandaríkjamenn viðurkenna heldur ekki að réttlætanlegt sé að svipta mann frelsi sínu nema fyrir liggi rökstuddur grunur um lögbrot. Engu að síður hafa menn í hundraðatali verið vistaðir í Abu Graib búðunum, án nokkurs sem vestrænt réttarfar skilgreinir sem rökstuddan grun. Það er bara nóg að vera af arabískum eða persneskum uppruna, til að eiga þessa meðferð á hættu. Ennþá auðveldara er að finna dæmi um að lagabókstafurinn dugi ekki til að fá menn dæmda. Á Íslandi er dreifing kláms og guðlasts t.d. ólögleg*. Það þarf þó ansi gróft guðlast til að dómstólum ofbjóði og eingöngu barnaklámshlutinn af klámbanninu er virtur.
ÞRÓUNIN Í BRETLANDI
Það er ljóst að bókstafur laganna og framkvæmd þeirra, fer ekki alltaf saman. Það að ekkert vestrænt ríki viðurkenni öfuga sönnunarbyrði í kynferðisbrotamálum, er því engin sönnun fyrir því að henni hafi ekki verið hnikað í raunveruleikanum. Og þar með komum við að fjórðu fullyrðingunni:
4. Það er bara vitleysa að Bretar séu búnir að snúa sönnunarbyrðinni við!
Sá ágæti maður Ingólfur Gíslason (sem, þrátt fyrir að vera almennt víðsýnn og vel hugsandi, leggur iðulega alla skynsemi til hliðar þegar feminismi er annarsvegar) varð beinlínis hneykslaður á mér fyrir að fullyrða að Bretar væru búnir að hnika sönnunarbyrðinni. Honum þótti einkar ábyrgðarlaust af mér að vitna í upplýsingar frá lögfræðistofu sem tekur að sér að verja skjólstæðinga sem sakaðir eru um kynferðisglæpi, en í kynningarefni stofunnar kemur m.a. fram að með lagabreytingum árið 2003, hafi ákærða verið gert að sýna fram á að meintur brotaþoli hefði gefið samþykki sitt fyrir kynmökum. Ég taldi ekki ástæðu til að ætla að lögfræðingum dytti í hug að ljúga upp lögum en það er auðvitað hægt að sjá þetta á ýmsum öðrum stöðum, t.d. í þessum bæklingi sem er ætlaður þolendum kynferðisglæpa. Þetta kemur fram strax á bls. 4 í bæklingnum:
Now, if a defendant in court wants to claim they believed the other person was consenting, they will have to show they have reasonable grounds for that belief.
Þetta merkir að þar sem orð stendur gegn orði þarf hinn ákærði að sanna að meintur brotaþoli verið gefið samþykki sitt og verið með fullri rænu. Í raun er ekkert sem hindrar dóminn í því að krefjast þess að hann sanni að hún hafi sagt já og fylgt samþykkinu eftir með viðeigandi látæði. Á mannamáli heitir þetta öfug sönnunarbyrði.
(Þótt það komi efni pistilsins ekki beinlínis við, langar mig að nefna það í framhjáhlaupi að þessi gagnrýni Ingólfs var sett fram á Knúzinu, á umræðuþræði þar sem Drífa Snædal hafði verið spurð um gögn sem styddu staðhæfingar hennar, en hún gaf upp heimildir sem studdu þær alls ekki. Þar kaus Ingólfur, í félagi við Magnús Svein Helgason, að ráðast á mig með fullyrðingum um að mín heimildanotkun væri stórkostlega vafasöm (og mátti skilja af orðum þeirra að þar með hefði ég fyrirgert rétti mínum til ætlast til að Drífa segði satt frá efni þeirra heimilda sem hún notar.) Þetta er því miður algengt meðal þeirra feminista sem mest hafa sig í frammi í kynjaumræðunni á Íslandi. Settar eru fram órökstuddar fullyrðingar, greinar skreyttar með vísun í heimildir sem segja eitthvað allt annað en greinarhöfundur heldur fram. Þegar höfundur er svo krafinn skýringa, kemur einhver annar feministi (gjarnan karlmaður ) til varnar. Vörnin felst í því að beina athyglinni frá umræðuefninu og að tilefnislausum kröfum um að gagnrýnandinn sanni að greinarhöfundur hafi rangt fyrir sér, eða kvörtunum um eitthvað allt annað sem kemur efninu ekki við, eins og í þessu tilviki. Það er skemmtilega írónískt en hér er einmitt verið að snúa sönnunarbyrðinni við.)
Það er fleira í þessum bæklingi sem er athyglisvert. T.d. hefur skilgreiningin á kynferðislegri áreitni verið víkkuð, eða eins og fram kemur á bls. 6:
Sexual assault
This law covers any kind of intentional sexual touching of somebody else without their consent. It includes touching any part of their body, clothed or unclothed, either with a part of the body or with an object.
Sjáið hverskonar túlkun þessi lög bjóða upp á. Í strangasta skilningi gæti ég kært samstarfsmann minn sem yrði það á að pota með blýanti í öxlina á mér, svo fremi sem ég hefði upplifað það sem eitthvað kynferðislegt. Ég reikna ekki með að breskir dómstólar tækju það gilt, ekki frekar en íslenskir dómstólar hlusta á kærur um klám og aðra eins vitleysu, en möguleikinn hefur verið lögleiddur.
En það eru ekki bara Bretar sem hafa víkkað skilgreiningar og hnikað sönnunarbyrði. Vandlæting Ingólfs Gíslasonar yfir því að mér skyldi detta annað eins í hug varð mér hvatning til að skoða þróun þessara mála á Norðurlöndum. Ég er ekki búin að lesa margar greinar ennþá en hef þó allavega komist að því að í Noregi er starfandi sérstök nefnd sem sker úr um endurupptöku dómsmála. Á 6 árum hafa 88 manns fengið uppreisn æru fyrir tilstilli hennar. Ég veit þó enn ekki hversu hátt hlutfall þeirra mála sem nefndin hefur skoðað eru kynferðisbrotamál.
Í Svíþjóð hefur komið upp hvert málið á fætur öðru þar sem komið hefur í ljós að menn hafa verið dæmdir að ósekju. Þetta gengur svo langt að árið 2006 undirrituðu fimmtán lögmenn bréf þar sem gerðar voru alvarlegar athugasemdir um sönnunarfærslu í sakamálum og eru kynferðisbrotamál sérstaklega tilgreind.
Svo niðurstaðan er; jú, því miður, Bretar og reyndar fleiri þjóðir hafa í reynd tekið upp öfuga sönnunarbyrði í kynferðisbrotamálum. Það er engin ástæða til að ætla að þróunin verði önnur á Íslandi, nema við lærum af reynslu annarra þjóða og stöðvum þessa þróun áður en hún leiðir til óbætanlegra hörmunga fyrir fjölda saklausra manna.
Tilraunir til að snúa sönnunarbyrðinni eru skiljanlegar. Á þessum frjálslyndistímum, þegar fólk eignast gjarnan marga maka á lífsleiðinni og skyndikynni þykja ekki tiltökumál, er alltaf ákveðin hætta á því að maður lendi í asna. Einhverjum sem skilur ekki líkamstungumál eða notar slíkt skilningsleysi til að breiða yfir eða réttlæta óþolandi hegðun. Einhverjum sem virðir ekki mörk nema honum sé sagt skýrt og skorinort að finna sér friðsælan stað og skjóta sig í hausinn. Það er fín lína á milli gráa og svarta svæðisins og auðvitað er það óþolandi að til skuli vera fólk sem virðir ekki mörk annarra. En að setja hvern einasta asna sem kann sig ekki í sama flokk og Jack the Ripper, það er vafasamt gæfuspor. Ennþá vafasamara er þó að setja mann sem er asni fremur en ofbeldismaður, eða jafnvel bara blásaklaus, í þá stöðu að þurfa að hreinsa sig af áburði um kynferðisglæp þegar ekkert sérstakt bendir til þess að hann sé sekur.
☆☆☆
* Kveðið er á um klám og guðlast í 210. og 125. gr. almennra hegningarlaga.
210 Ef klám birtist á prenti, skal sá, sem ábyrgð ber á birtingu þess eftir prentlögum, sæta sektum …1) eða fangelsi allt að 6 mánuðum.
Sömu refsingu varðar það að búa til eða flytja inn í útbreiðsluskyni, selja, útbýta eða dreifa á annan hátt út klámritum, klámmyndum eða öðrum slíkum hlutum, eða hafa þá opinberlega til sýnis, svo og að efna til opinbers fyrirlestrar, eða leiks, sem er ósiðlegur á sama hátt. [Þegar slíkt efni sýnir börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt getur refsing þó orðið fangelsi allt að 2 árum.]2)
125. gr. Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða [fangelsi allt að 3 mánuðum].1) Mál skal ekki höfða, nema að fyrirlagi saksóknara.