Fyrsti pistilinn í þessari röð kallaði fram verulega afhjúpandi viðbrögð þeirra sem leynt og ljóst vilja slaka á sönnunarkröfum í kynferðisbrotamálum (enda þótt þeir/þær viðurkenni það ekki í orði.) Í þessari grein ætla ég að rýna betur í eftirfarandi staðhæfingu sem kom fram í ýmsum tilbrigðum sem svar við fyrsta pistlinum:
8. Jafnvel þótt slakað væri á sönnunarkröfum, þurfum við ekki að hafa neinar áhyggjur, vegna þess að hlutfall rangra sakargifta er svo lágt að það tekur því ekki að tala um það.
Því hefur verið haldið fram að hlutfall falskra nauðgunartilkynninga sé það sama og í öðrum málaflokkum, 1-2%. Engin gögn hef ég séð sem styðja þá kenningu og hef ég þó oft kallað eftir þeim.
Ég tek fram að ég hef engan sérstakan áhuga á því hvort falskar kærur eru margar eða fáar, mér finnst möguleikinn einn vera nógu sterk rök til þess að slaka ekki í neinu á sönnunarkröfum. Mér finnst hinsvegar alltaf ástæða til að leiðrétta viðtekin sannindi sem byggjast ekki á neinu nema óskhyggju eða paranoju, einkum þegar hætta er á að þau hafi áhrif á meðferð mannréttinda. Ég held reyndar að útilokað sé að færa sönnur á það hvert hlutfallið er en við skulum til gamans skoða hvað er á bak við þessar tölur.
Rannsóknir á hlutfalli falskra nauðgunartilkynninga sýna á bilinu 1,5-45%. Hvað 1% kenninguna varðar virðist sú rannsókn vera einhver skáldsaga. Einhver hefur haldið því fram að rannsóknir sýni… og hver fáráðurinn á öðrum tuggið það upp gagnrýnilaust og án þess að spyrja um heimildir. Hvað varðar hæsta og lægsta hlutfall sem rannsóknir sýna, þá bendir þessi mikli munur til þess að rannsóknirnar segi meira um pólitíska sannfæringu rannsakenda en raunverulegt hlutfall falskra sakargifta.
Mismunandi niðurstöður rannsókna
Samkvæmt rannsóknum byggðum á módeli McDowells eru um 60% ásakana um nauðgun falskar. Módeilið hefur verið harðlega gagnrýnt. Ef marka má gagnrýnendur hafa vinnubrögðin einkennst af vilja til að sýna sem hæst hlutfall tilefnislausra kynferðisbrotakæra og rannsakendur notað sitt eigið „innsæi“ fremur en haldbær gögn til að leggja mat á sannleiksgildi nauðgunartilkynninga. Ég hef satt að segja ekki trú á því að ég græði neitt á því að skoða „rannsóknir“ sem byggja á kvenfyrirlitningu fremur en gögnum og það er allavega ekki forgangsverkefni hjá mér.
Samkvæmt gögnum frá FBI byggja um 8% nauðganakæra á ósannindum. Ég hef ekki önnur íslensk gögn en tölur kynferðisbrotadeildar lögreglunnar frá einu ári, 2008. Þar er talað um 7% en það er ekki hægt að alhæfa neitt út frá einu ári. Feministinn David Lisak, kemur hlutfallinu niður í 5,9% með því að reikna aðeins með rangfærslum í málum þar sem meintur brotaþoli viðurkennir að hafa farið með ósannindi eða aðrar áreiðanlegar sannanir liggja fyrir. Þótt eflaust megi reikna með að einhver þeirra mála sem dregin eru til baka séu rangfærslumál, sé ég engan tilgang í að fabúlera um það, svo ég er allavega nokkuð sátt við rannsókn Davids Lisak.
Liz Kelly, sem margir feministar hafa vísað til, kemur hlutfallinu alveg niður í 3% en ég hef meiri efasemdir um hennar aðferð. Það sem er gott við þessa grein Kelly er að hún sýnir fram á hversu varasamt er að meta sannleiksgildi frásagna þar sem orð stendur gegn orði og engin vitni eða önnur sönnunargögn eru til staðar. Hún bendir t.d. á heimildir sem afhjúpa ákveðna fordóma lögreglunnar um það hvað skuli teljast alvöru nauðgun. Það er gott að fá þetta sjónarhorn í umræðuna og ég vil heyra frá fólki eins Liz Kelly en engu að síður hef ég ákveðnar athugasemdir við túlkanir hennar á gögnum. Þær benda nefnilega til þess að hún sé frekar að leita að stuðningi við pólitíska sannfæringu sína en sannleikanum.
Um vinnubrögð Liz Kelly
Sem dæmi um það hvernig Kelly lagar gögnin að kenningu sinni má nefna afstöðu hennar til framburðar þeirra sem lögreglan telur vafasöm vitni. Hún bendir þannig á tilhneigingu til að meta framburð greindarskertra og geðveikra kvenna sem vitleysu en skautar algerlega fram hjá spurningunni um það hvort sömu takmarkanir séu taldar draga úr trúverðugleika karlmanns sem ber af sér nauðgunarákæru.
Einnig talar Kelly um að sennilega sé hlutfall falskra tilkynninga lægra í kynferðisbrotamálum en mörgum öðrum málaflokkum, því þegar t.d. þjófnaður sé tilkynntur, geti mótífið verið það að ná út tryggingafé. Hinsvegar nefnir hún ekki í þessu samhengi að í brotaþolar í nauðgunarmálum leggja oft fram háar bótakröfur. Hún getur þess heldur ekki að fleiri og flóknari mótíf koma þar til en í flestum öðrum málaflokkum og erfið sönnunarfærsla gerir það að verkum að auðvelt er að bera sakir á mann að tilefnislausu.
Kelly finnst greinilega lítið mál að 3% þeirra manna sem eru ranglega ásakaðir um nauðgun séu handteknir (samkvæmt einni könnun, sem er svosem ekki hægt að alhæfa út frá) og aðeins 1 af hverjum 100 ákærðir. Hún reynir m.a.s. að réttlæta það með þeim rökum að í jafn mörgum tilvikum hafi lögreglan talið víst að kærendur færu með ósannindi og að sama hlutfall, 1% hafi sætt ákæru um að vanvirða réttinn með tilefnislausum kærum. Semsagt, það er ekkert mál að karlmenn sæti fölskum nauðgunarákærum af því að jafn margar konur sæta vel rökstuddum ákærum um rangar sakargiftir. (Sjá bls 1349 í greininni sem ég tengdi á hér að ofan) Ætli við þurfum nokkuð að hafa áhyggjur af „bias“ hjá vísindamanni sem lætur svona viðhorf frá sér opinberlega?
Kelly kemur hlutfalli falskra nauðgunarkæra úr 8-10% (það eru opinberar tölur í Bretlandi) niður í 3% með því að taka út öll mál sem hún telur að vafi leiki á um. Þar á hún við mál þar sem hún telur að trúverðugleiki konunnar hafi verið metinn út frá persónulegum eiginleikum. Ekki er ljóst hvað hún á við með persónulegum eiginleikum eða hvernig löggan hefur metið þessi mál. Getur verið að kona sé ekki talin trúverðug ef hún klæðir sig eins og dræsa og notar tyggjó frjálslega? Eða er um að ræða frásagnir þar sem meintir brotaþolar sökuðu forseta Bandaríkjanna um að hafa skriðið inn um glugga á 10. hæð og nauðgað sér eða lýstu ofbeldismanninum sem rauðum púka með geitarhöfuð? Ég treysti mér engan veginn til að taka afstöðu til réttmætis þess að afskrifa framburð vegna „persónulegra eiginleika“ nema fá það á hreint hvort um er að ræða framburð sem augljóslega bendir til veruleikafirringar eða bara konur sem fóru í taugarnar á þeim sem tóku af þeim skýrslur.
En hvað um það, þetta er nú aðferðin sem Kelly notar og þá standa eftir tveir flokkar, mál þar sem meintur brotaþoli viðurkennir að hafa farið með ósannindi og mál þar sem einhver sönnunargögn (sem ekki er gerð frekari grein fyrir) liggja fyrir um að framburður sé ekki á rökum reistur. Fyrri flokkinn merkir hún „probable“ en hinn seinni „possible“. (bls 1350) Hún telur þannig „líklegt“ (en engan veginn víst,) að kona sé að segja satt þegar hún viðurkennir að hafa logið til um nauðgun. Hún telur „mögulegt“ að kona sé að spinna upp sögu þegar sönnunargögn benda til þess.
Trúverðugar lýsingar?
Nú má alveg færa rök fyrir því að varasamt sé að ganga út frá því að fólk sem játar á sig saknæmt athæfi sé alltaf áreiðanlegt. Þegar allt kemur til alls játaði Erla Bolladóttir á sínum tíma að hafa skotið Geirfinn Einarsson til bana en hún hefur nú sennilega verið ein um að trúa því. Örvæntingarfullt fólk játar oft á sig einhverja vitleysu og auðvitað getur það gerst í rangfærslumálum eins og öðrum. Það verður þó að teljast athyglisvert að Kelly skuli setja fyrirvara við framburð kvenna sem játa á sig tilhæfulausar nauðgunarkærur, en ekki eiga í neinum vandræðum með að trúa því að framburður karlmanns sem játar á sig nauðgun sé hinn áreiðanlegasti. Hún sér heldur enga ástæðu til að draga í efa játningar 9 manns, bæði karla og kvenna í Nottingham, sem árið 1989 voru sökuð um ofbeldi gagnvart fjölda barna. Það var ekki einungis kynferðisleg misnotkun sem þeim var gefin að sök, heldur voru þau talin hafa nauðgað börnunum í satanískum trúarathöfnum sem fólu m.a. í sér dýrafórnir, ungbarnafórnir, blóðskírn, mannát og fleira kræsilegt. Um þessi mál og fleiri af sama toga skrifar Liz Kelly hér, en hún telur einnig frásagnir geðveikra af samræði við Djöfulinn, benda sterklega til þess að glæpur hafi verið framinn, þótt það hafi kannski ekki verið sá svarti sjálfur sem var að verki.
Rannsóknarnefnd sem fór ofan í saumana á Nottingham-málinu (eftir að fólkið hafði játað á sig ýmis voðaverk og hlotið fangelsisdóma upp á samtals 150 ár) komst að annarri niðurstöðu. Því fólki fannst t.d. ástæða til að taka tillit til þess að enginn þeirra staða sem börnin lýstu, þar sem hinar hræðilegu fórnarathafnir áttu að hafa fara farið fram, fannst. Meðlimir nefndarinnar sáu líka ástæðu til að draga í efa sögu litla barnsins sem sagði frá því að mamma þess flygi oft á kústskafti. Þeim fannst líka eitthvað skáldlegt við framburð drengsins sem sagðist sjálfur vera Súpermann og að hann dræpi nornirnar í svallveislum fjölskyldunnar. Barnið sem sagði frá því að fjölskyldan væri vön að klóra geit til bana, og fara svo með hana á spítalann til að lækna hana, var sömuleiðis álitið vafasamt vitni, svona eftir á. Rannsóknarnefndinni fannst reyndar með ólíkindum að fólkið hefði verið dæmt á grundvelli þessa framburðar og það þótti fleirum, t.d. hafði einn lögmanna á orði að það hefði síðast gerst á 16. öld að álíka vitnisburður barna hefði talist áreiðanlegt sönnunargagn í sakamáli. Löggunni fannst þetta líka alltsaman frekar ótrúverðugt sem og flestum þeirra sem fjallað hafa um málið síðan – en ekki Liz Kelly. (Hér er þægilegur útdráttur úr skýrslu rannsóknarnefndarinnar.)
Úttekt Liz Kelly á mati lögreglunnar á fölskum nauðgunarkærum er áhugaverð. Galin afstaða hennar til SRA mála (satanic ritual abuse) ógildir ekki allt annað sem hún hefur gert. En Liz Kelly er því marki brennd að setja pólitísk viðhorf sín ofar vísindalegri nálgun. Það er í sjálfu sér allt í lagi, svo fremi sem tilgangur hennar er á hreinu en við verðum að skoða rannsóknir hennar og ýmissa annarra sem fjallað hafa um rangar sakargiftir (einnig þeirra sem telja að hlutfall þeirra sé verulega hátt) í því ljósi að pólitísk afstaða litar bæði vinnubrögðin og túlkun á niðurstöðum.
Ég sé ekki að þær rannsóknir sem eru almenningi aðgengilegar, geti fært neina vissu um hlutfall rangra sakargifta í kynferðisbrotamálum. Mér finnst hlutfallið sjálft heldur ekkert sérstaklega áhugavert. Staðreyndin er nú sú að fólk kaupir sér lottómiða af því að það veit af möguleikanum, enda þótt líkurnar á vinningi séu mjög litlar. Ætli þeir sem eru til í að gefa afslátt af sönnunarkröfum væru sjálfir til í að vera þessi eini af fjörtutíu, fimmtíu eða hundrað sem er ranglega ásakaður um nauðgun? Hversu margir eru tilbúnir til að slá af sönnunarkröfunum ef þeir eiga sjálfir á hættu að vera dæmdir fyrir svívirðilegan glæp?
Ekki endilega einbeittur brotavilji
Það er af og frá að mitt markmið með þessum skrifum sé að hengja sem flestar konur. Eins og ég hef tekið fram í fyrri pistlum, þá er tilgangur þeirra kvenna sem ljúga til um kynferðisofbeldi sjaldan illgirnislegur og konur sem segjast ranglega hafa orðið fyrir nauðgun eru oft tregar til að kæra, einmitt af því að tilgangurinn var ekki sá að rústa lífi manns, heldur að fegra sjálfa sig eða biðja um samúð. Ég hef beðið fólk að setja ekki tillitslausa unglinga í flokk með forhertum ofbeldismönnum. Á sama hátt mælist ég til þess að við förum varlega í að setja í sama pott þessa forhertu konu, og viðkvæma unglingsstúlku sem varð það á að ýkja smávegis en varð svo fyrir þrýstingi sem leiddi af sér meiriháttar drama.
Þegar skilgreining almennings á nauðgunum og misneytingu er víkkuð svo mikið að nánast allar konur yfir þrítugu hafa samkvæmt henni orðið fyrir kynferðisofbeldi, eykst hættan á því að tilefnislitlum nauðgunarásökunum sé varpað fram í andartaks geðshræringu. Og hvaða skilaboð fær ung kona sem kemur til vina sinna í uppnámi og segir að helvítis dýrið hafi nauðgað sér? Er henni hjálpað að ná sér niður og segja svo nánar frá þegar hún er komin í betra jafnvægi? Nei, henni er ekið beina leið upp á neyðarmóttöku og hvað á hún að segja við lækninn? Getur hún sagt;
„Ég sagði nú bara svona af því að ég var miður mín og ég vil gjarnan fá áfallahjálp en þetta var samt ekki nauðgun.“
Nei, það er ekki það sem læknirinn væntir og strax þarna er hún komin í klemmu.
Og hvað ef framburður hennar reynist þversagnakenndur eða á skjön við það sem við blasir; kemur þá elskandi móðir, systir eða frænka og segir;
„oj hvað hann er mikill skíthæll en ertu nú viss um að nauðgun sé rétta orðið?“
Neineinei, hinsvegar kemur „fagaðili“ og staðfestir að það sem hún hefur orðið fyrir sé „púra ofbeldi“ og þetta snúist ekki um það sem blasir við öðrum, heldur um hennar upplifun. Og þegar hún dregur í land og telur að hún hafi kannski sjálf átt einhverja sök á því hvernig hlutirnir þróuðust, kemur þá einhver og segir;
„Já veistu það, þegar maður verður fyrir áföllum þá er hætta á að maður rugli öllu saman og fari að trúa því að hlutirnir hafi verið töluvert verri en þeir voru. Ég hef sjálf lent í því að taka of sterkt til orða þegar ég lenti í skíthæl.“
Nei,onei, hún fær HVERGI stuðning til að bakka með ásökunina á meðan hún á ennþá möguleika á að halda reisn sinni. Þvert á móti eru skilaboðin sem hún fær þau að líf hennar sé ónýtt og að eina leiðin til að lifa af, sé sú að sannfæra alheiminn um að maðurinn sé nauðgari. Jafnframt er henni þó gerð grein fyrir því að réttarkerfið muni vinna á móti henni af óumbreytnalegri illsku feðraveldisins en að „okkars“ muni samt trúa henni af því að hinir réttsýnu viti að konur ljúgi ekki til um nauðganir. Hvað á ung kona að gera þegar hún er komin í þessa stöðu? Játa á sig að vera þessi eina af 100 eða 1000 sem verður það á að mála hlutina óþarflega sterkum litum? Á hún að bakka þegar áheyrendur eru greinilega að biðja um meira? Nei, ætli sé ekki öllu líklegra að hún kryddi frásögnina.
Að taka kynferðisofbeldi alvarlega er eitt. Að túlka árekstra sem ofbeldi og það sem sagt er í geðshræringu sem áreiðanlegan vitnisburð er annað mál og ekkert sérlega ábyrgt. Kannski ættum við í stað þess að hrópa „sálarmorð“ og „mannorðsmorð“ að viðurkenna að þegar óábyrgt kynlíf dauðadrukkinna unglinga er annars vegar, fer ýmislegt úrskeiðis án þess að hreinræktuð illska búi að baki. Flestum verður það einhverntíma á að sýna yfirgang og hroka, nú eða þá að ýkja yfirgang félaga síns og leggja óþarflega dramatíska merkingu í hegðun hans. Það er ekki fallegt að hegða sér þannig og afleiðingarnar geta reynst þungbærar en það er ekki þar með sagt að þessháttar atvik eigi endilega heima fyrir dómstólum.