ALÞJÓÐADÓMSTÓLL TELUR ERDOĞAN ÁBYRGAN FYRIR STRÍÐSGLÆPUM GEGN KÚRDUM
Í gær komst alþjóðadómstóll í málefnum Tyrkja og Kúrda að þeirri niðurstöðu að Erdoğan, þjóhöfðingi Tyrkja, bæri beina ábyrgð á stríðsglæpum tyrkneska ríkisins gagnvart Kúrdum á undangengum árum. Dómurinn mælir meðal annars með því „neyðarástandi“ verði aflétt en í skjóli þess hafa Tyrkir áskilið sér rétt til að sniðganga ýmis ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu. Réttarríkið verði endurreist í Tyrklandi, blaðamönnum og fræðimönnum sleppt úr haldi og fjölmiðlafrelsi endurvakið. Ennfremur að Tyrkir kalli herdeildir sínar frá Afrín og að stríðsglæpir verði rannsakaðir í Tyrklandi og sekum refsað fyrir stríðsglæpi.
Meðal þeirra glæpa sem dómurinn sagði Tyrki hafa framið gegn Kúrdum eru skemmdarverk á menningararfleifð þeirra og helgistöðum. Sprengjum hefur verið varpað á byggingar og önnur mannvirki sem þjóna engum hernaðarlegum tilgangi, svosem vatnsveitur. Andspyrnumenn hafa verið numdir á brott af tyrknesku leyniþjónustunni, fjöldi Kúrda verið hrakinn á brott frá heimilum sínum, aftökur framdar án dóms og laga, fjöldamorð framin á almennum borgurum þ,á.m. fólki með hvít flögg eða hendur á lofti til merkis um uppgjöf.
Dóminn og myndskeið frá réttarhöldunum má sjá hér.
Umfjöllun ANF
Umfjöllun The Region
Umfjöllun Morningstar
Bæði Utanríkisráðherra og Forsætisráðherra Íslands hafa hundsað fyrirspurnir fjölskyldu Hauks, sonar míns, um það hvort þau ætli virkilega ekki að spyrja tyrknesk yfirvöld út í meðferð þeirra á líkum andstæðinga sinna, þrátt fyrir vísbendingar um að lík þeirra sem féllu í innrás þeirra í Afrín liggi rotnandi á víðavangi. Sömuleiðis hefur Forsætisráðherra hundsað sameiginlegt bréf foreldra Hauks Hilmarssonar og Önnu Campbell, sama efnis. Ákalli 400 manns um að Forsætirráðuneytið tæki við máli Hauks úr höndum Utanríkisráðuneytisins svaraði Katrín Jakobsdóttir á þá leið að stjórnvöld hefðu „leitað allra leiða“ til að afla upplýsinga, vitandi að þau hafa ekki einu sinni spurt Tyrki hvað hafi orðið um líkin heldur sent erindi til hinna og þessara diplómata sem er útilokað að viti neitt um það.
Það er svosem ekkert nýtt að ríkisstjórn Íslands vilji ekki ergja stríðsglæpamenn með óþægilegum spurningum og oft hef ég velt því fyrir mér hvað þurfi eiginlega til. Pyntingar, skipulögð mannshvörf, þjóðarmorð … ekkert af þessu telja íslensk stjórnvöld sér viðkomandi. Og nú vitum við að sennilegt brot á alþjóðalögum gagnvart íslenskum ríkisborgara kemur ríkisstjórn Íslands heldur ekki við. Að minnsta kosti ekki þegar stríðsglæpamenn á borð við Erdoğan eiga í hlut.