Stutt er síðan ég svaraði fyrirspurn lesanda sem hafði orðið fyrir því að verslun neitað að taka við reiðufé. Í gær hafði Fréttablaðið svo eftir Sighvati Björgvinssyni að sér þætti langt gengið þegar íslensk hótel krefðust greiðslu í evrum ef gisting er pöntuð í gegnum erlendar bókunarsíður.

Það virðist reyndar vera misskilningur hjá Sighvati að ekki sé í boði að greiða í krónum en mættu fyrirtæki skikka viðskiptavini til að greiða í Evrum?

Þegar samtökin Fararheill kvörtuðu undan þeirri stefnu Icelandair að taka ekki við reiðufé, árið 2016, kom eftirfarandi fram í áliti Seðlabankans:

Verð sem Icelandair gefur upp fyrir vörur sínar og þjónustu eru gefin upp í íslenskum krónum og verður því ekki séð að flugfélagið hafi lokað fyrir greiðslu í íslenskri mynt þar sem reiknieiningin á bak við kortaviðskipti og vildarpunkta er íslensk króna. Það er einungis sá greiðslumáti að greiða með reiðufé sem félagið hefur tilkynnt að sé ekki lengur í boði.

Eins og fram kemur í fyrri færslu tel ég það álit Seðlabankans að heimilt sé að hafna reiðufé ekki halda vatni. En samkvæmt þessu myndi Seðlabankinn ekki fallast á að fyrirtæki sem veita þjónustu á Íslandi geti synjað Sighvati og öðrum í sömu sporum um að fá að greiða í íslenskum krónum. Hótelið mætti því ekki nota bókunarsíðu þar sem lokað er fyrir greiðslu í íslenskri mynt og notuð önnur reiknieiningu en íslenska krónu.

Mynd: 123886994 / Currency © Janusz Pieńkowski | Dreamstime.com