Warning: Trying to access array offset on value of type bool in /var/www/virtual/hlit.is/htdocs/wp-content/plugins/visual-link-preview/includes/public/class-vlp-link.php on line 176
Þegar ég byrjaði á þessari pistlaröð, hafði ég áhyggjur af því að Íslendingar myndu smásaman fikra sig í sömu átt og Bretar, og að lokum snúa sönnunarbyrðinni við. En ég vissi ekki þá hversu langt þetta er gengið. Sjáið þetta. Sjáið hvað er að gerast.
Komi þessar andlegu afleiðingar fram eftir kynmök eru fram komnar fullnægjandi sannanir fyrir því að þolandanum hafi verið þröngvað til kynmaka, að ofbeldi hafi verið beitt eða hótun um ofbeldi.
(leturbreyting mín.)
Þetta er lagafrumvarp sem miðar að því að snúa sönnunarbyrðinni í kynferðisbrotamálum við. Aðferðirnar eru þær sömu og hafa verið notaðar í öðrum löndum:
-Enduskilgreining á kynferðisofbeldi, þar sem hugtakið ofbeldi felst ekki lengur í verknaðinum heldur í upplifun þolandans.
-Minni sönnunarkröfur.
-Vottorð sálfræðings tekið sem fullnægjandi sönnunargagn.
Rökin eru þau að svona sé þetta í öðrum málaflokkum, þar sé áherslan ekki á verknaðinn heldur á afleiðingarnar. Þetta er villandi svo ekki sé meira sagt. Ef ég kæri mann fyrir húsbrot þá verður lögreglan að sýna fram á gögn sem benda til þess að húsbrot hafi raunverulega verið framið. Ef maðurinn heldur því staðfastlega fram að ég hafi boðið honum inn, og ef ekkert finnst sem styður framburð minn þá er málið ekki kæruhæft. Það sama á við um að hnýsast í einkamál. Ef ég gef einhverjum lykilorð á læstar bloggfærslur en sé svo eftir því síðar, þá get ég ekki kært hann fyrir að hafa lesið eitthvað sem ég vildi eftir á að hann hefði ekki lesið, jafnvel þótt það hafi skelfilegar afleiðingar fyrir mig.
Að líkja vottorði sálfræðings við sönnunargögn í líkamsárárásar- og manndrápsmálum er svo í meira lagi vafasamt. Engin sómakær manneskja myndi sakfella einhvern fyrir líkamsrárás eða morð nema hafið sé yfir skynsamlegan vafa að hann eigi sök á áverkum eða dauða. Andlegt ástand sannar ekki nauðgun, ekki frekar en líkamlegur verkur sannar líkamsárás þegar eini vitnisburðurinn um hann er frásögn þess sem kærir og verkurinn gæti auk þess átt sér ótal aðrar skýringar.
Við skulum líka skoða hugmyndir flutningsmannanna um birtingarmyndir kynferðisofbeldis:
Kynferðisofbeldi birtist í mismunandi formi, svo sem nauðgun, sifjaspellum, kynferðisofbeldi gagnvart börnum, klámi og kynferðislegri áreitni á vinnustöðum eða annars staðar. (Leturbreyting mín)
Skiljið þið núna hversvegna ég er alltaf að skrifa um brjálæði þessarar klámvæðingarumræðu? Það er nefnilega þetta sem er að gerast, það er raunverulega verið að fella kynörvandi efni undir ofbeldishugtakið. Og það eru ekkert bara þessir fimm þingmenn sem eru ekki búnir að hugsa þetta til enda. Sjáið þetta:
Sjáið tengilinn á pdf-skjalið allra neðst á myndinni. Sjáið þið hvað stendur þarna? Titli bæklingsins hefur svo verið breytt til að milda þetta aðeins. Ætlunin er að venja okkur smámsaman við hugmyndina þar til nýhreintrúarstefnan er orðin nógu útbreidd til að hægt sé að hefja nornaveiðarnar fyrir alvöru.
Verði þetta frumvarp að lögum er kynlíf þar með orðið ólöglegt nema hægt sé að færa óyggjandi sönnur á að upplýst samþykki hafi legið fyrir allan tímann á meðan á leiknum stóð og að upplifun konunnar hafi verið jákvæð. Ég sé ekki betur en að eina leiðin til að sanna það sé undirrituð og vottfest staðfesting á því að samþykki hafi legið fyrir öllum þeim kynferðislegu samskiptum sem þegar hafa farið fram, þ.m.t. daður, húmor og allt annað sem annar aðilinn gæti hugsanlega upplifað sem áreitni eða klám. Ekki er nóg að undirrita slíkt samþykki áður en kynmök fara fram, þar sem fólk hefur alltaf leyfi til að draga samþykki sitt til baka og því mögulegt fyrir hvern þann sem getur orðið sér úti um vottorð um andlegar afleiðingar nauðgunar, að halda því fram að nauðgun hafi átt sér stað.
Rétturinn til kynfrelsis er nú þegar tryggður með lögum, það ER bannað að hafa kynmök við manneskju án samþykkis hennar. Það gengur að sjálfsögðu illa að sanna að brotið hafi verið gegn þessum rétti þegar aðeins stendur orð gegn orði og því vilja flutningsmenn tillögunnar breyta með því að svipta þá mannréttindum sem bornir eru sökum um kynferðisbrot. Auðvitað reyna flutningsmenn tillögunnar að breiða yfir þetta, s.br. þetta:
Frumvarpið gerir ekki ráð fyrir að slakað sé á meginreglum opinbers réttarfars um sönnun, enda engin þörf á því til að ná fram sakfellingum ef réttra aðferða er gætt við rannsókn lögreglu og öflun sönnunargagna.
Það sér hver fáráður að þetta stenst ekki. Engum heilvita manni dytti í hug að líta á andlegt ástand meints brotaþola sem fullgildandi sönnunargagn í neinum öðrum málaflokki.
Markmið nýhreintrúarsinna (sem flestir kalla sig feminista) er að snúa sönnunarbyrði í kynferðisbrotamálum við. Þessi vinna er langt komin. Svona langt. Hefur virkilega enginn áhyggjur af þessu nema ég?