Fyrir um 35 árum, vaknaði ung móðir í vesturbænum um miðja nótt, við að ókunnugur maður var kominn upp í rúm til hennar. Hann var með grímu fyrir andlitinu og hélt hnífsegg við hálsinn á henni.
Hún veitti enga mótspyrnu. Auðvitað ekki. Á meðan hann svívirti hana hugsaði hún um tvennt, fyrst hvort henni tækist að komast hjá því að vekja litla drenginn sinn sem svaf í rimlarúmi í sama herbergi, ef hann styngi hana. Og svo, ef barnið lifði af, hversu langan tíma hann yrði þá að dúsa einn í rúminu með útsýni yfir blóði drifið lík móður sinnar, þar til einhver kæmi og bjargaði honum.
Barnið vaknaði ekki, konan lifði af og obeldismaðurinn fannst á endanum. Þetta var nauðgun. Alvöru nauðgun en það var ekki fyrr en glæpurinn taldist sannaður sem hún gat reiknað með því að aðrir en hennar nánustu tryðu sögunni.
Þetta er einstakt dæmi, flestar nauðganir verða ekki á þennan hátt. Þessi kona bauð ekki upp á ofbeldið, hún var sofandi heima í rúminu sínu. Að vísu lét löggan sem tók af henni skýrslu í ljós þá skoðun að hún hefði verið full dræsulega klædd, undir sænginni í sínu eigin rúmi, en hún var þó allavega bara að glyðrast heima hjá sér.
Svo laumulega fór hún hinsvegar ekki með druslulegt eðli sitt, konan sem þáði hamborgara af ókunnugum manni í miðbæ Reykjavíkur tíu eða fimmtán árum síðar og álpaðist svo með honum upp á hótelherbergi. Þegar þangað var komið þótti hamborgakaupandanum hún full treg til að sýna þakklæti sitt á viðeigandi hátt svo hann gerði það sem honum fannst rökrétt í stöðunni; mölvaði á henni andlitið með handafli og nauðgaði henni svo af mikilli hreysti. Og það er í alvöru til fólk sem er svo gífurlega víðsýnt, að því finnst gáleysileg hegðun konunnar skipta máli.
En þessi nauðgun var heldur ekki dæmigerð. Flestir þolendur kynferðisglæpa verða nefnilega ekki fyrir hrottafenginni árás ókunnugs manns, heldur eru það vinir og vandamenn sem brjóta gegn þeim. Og til er fólk sem lítur ekki á það sem glæp. Hún vissi það stúlkan sem áttaði sig endanlega á því að hún var í ofbeldissambandi, þegar kærastinn hennar reif í hárið á henni, sveigði hnakkann á henni aftur og keyrði sköndulinn á sér ofan í kokið á henni, svona til þess að kenna henni að góð stúlka segði ekki nei við unnustann þegar hann byði vinum sínum aðgang að henni. Á meðan hann andskotaðist á vélindanu í henni, hentu þeir félagar á milli sín spurningum um það hvort geirvörtur væru eldfimar, hvort þyrfti kannski að sjúga vinstri geirvörtuna til að halda glóð í þeirri hægri. Gífurlega hressir strákar og miklir húmoristar. Þetta var bara byrjunin. Þegar hún, mörgum vikum síðar, komst að þeirri niðurstöðu að það væri hann sem væri geðveikur en ekki hún, lagði hún loksins fram kæru, en til eru menn sem hafa vit á að skilja ekki eftir sig áverka og líklega hefði hún aldrei getað sannað neitt, ef sjarmörinn hefði ekki sýnt þá fyrirhyggju að taka eitt afreka sinna upp á myndband.
Það er þetta stóra EN
Það er varla hægt að hlusta á svona sögur án þess að hnefarnir á manni kreppist ósjálfrátt. Maður finnur blóðið hlaupa í kekki og öskrið hnipra sig saman í maganum. Svona menn eiga ekki að ganga lausir. Það þarf að vera hægt að koma höndum yfir þá. Það verður að vera hægt því það er ekkert réttlæti í öðru. Og blóðið í manni hrópar á réttlæti.
En maður fær ekki allt – og réttlæti fyrir einn getur þýtt óréttlæti fyrir einhvern annan. Við viljum réttlæti, að sjálfsögðu en það er alltaf þetta en og það er helvíti stórt en; hvað má það kosta?
Staðreyndin er sú að í flestum, langflestum nauðgunarmálum stendur orð gegn orði, ekkert hægt að sanna og nauðgarinn sleppur. – Og þannig á það að vera. Já, það gengur fram af okkur, stríðir gegn öllu sem heitir réttlæti en þannig á það að vera. Það er helvíti skítt en já, á meðan við viðurkennum það sem meðfædd réttindi hvers manns að teljast saklaus uns sekt hans er sönnuð, þá verður svo að vera.
Það er nefnilega til í dæminu að menn séu bornir röngum sökum. Það er vonandi sjaldgæft en hversu sjaldgæft, það bara vitum við ekki, niðurstöður rannsókna í þeim efnum virðast nefnilega velta algerlega á pólitískri sannfæringu rannsakenda. Það sem við vitum er að það getur gerst og að það gerist og það er nóg.
Í umræðu um kynferðisbrotamál skýtur af og til upp þeirri hugmynd að í þessum málaflokki geti öfug sönnunarbyrði átt rétt á sér. Þetta er hryllileg hugmynd, hugmynd sem gengur gegn grundvallarreglu réttarríkisins og mannréttindahugtakinu sjálfu. Nú hafa tveir áhrifamiklir feministar, Hildur Lilliendahl og Sóley Tómasdóttir, báðar svarað því á beinni línu hjá DV að þær séu ekki fylgjandi öfugri sönnunarbyrði og það er vissulega ákveðinn léttir að vita til þess.
Eðlilegt og réttlátt fer ekki alltaf saman
Og afhverju anda ég þá ekki bara með nefinu og sný mér að einhverjum raunverulegum voða fyrst goðsögninni um fylgi við öfuga sönnunarbyrði hefur verið hnekkt? Kannski vegna þess að raunveruleikinn sem við blasir segir mér annað. Kannski vegna þess að þegar hefur fallið dómur í kynferðisbrotamáli þar sem maður var dæmdur fyrir “skammvinna stroku inn á kynfæri” án þess að nokkur sönnun lægi fyrir um að umrædd stroka hefði átt sér stað. (Annars langar mig líka óskaplega að sjá strokulengdarskalann sem dómurinn studdist við, hver er nákvæmlega munurinn á skammvinnri stoku og langvinnri?) Kannski vegna þess að ég sé fólk, t.d. Sóleyju, tala um að kynferðisbrotamál eigi að fara fyrir dóm, enda þótt ekki sé ljóst hvort gögn mæla með sakfellingu eða ekki. Það er hreinlega eins og fólk átti sig ekki á því að þegar orð stendur gegn orði, þá er eðlileg afgreiðsla réttarkefisins sú að vísa málinu frá. Réttlát afgreiðsla? Nei, ekki fyrir raunverulegan þolanda sem getur ekki sannað mál sitt en eðlileg í ljósi þeirrar meginreglu að sönnunarbyrðin liggi hjá ákæruvaldinu.
Það er óhugnanleg þróun sem á sér stað í meðferð íslenska dómskerfisins á kynferðisbrotamálum. Þróun sem hvorki dregur úr tíðni þessarra glæpa né alvarleik þeirra, heldur býr í haginn fyrir aðra en síst geðslegri tegund ofbeldismanna; konur sem kúga menn, með því að ljúga upp á þá ofbeldisverkum. Því svoleiðis konur eru nefnilega til, klikkaðar konur eða bara illa gerðar, já þær eru til, þótt PR-fólkið flokki það sjálfsagt sem hreint og klárt kvenhatur að viðurkenna það. Annarsvegar sú þróun að menn eru dæmdir án sannana, sbr stokulengdardónann. Hinsvegar er eina leiðin sem mönnum hefur hugkvæmst til þess að viðurkenna að brotið hafi verið gegn konunni, sú að þyngja refsingar án þess að nokkuð bendi til þess að refsingar dragi úr ofbeldi.
Í september sl. var maður dæmdur fyrir kynferðisbrot gagnvart konu sem var að kasta af sér vatni á Austurvelli. Nú er ég ekki að mæla með því að dómskerfið komi sér upp húmor fyrir svona hegðun og ég efast ég ekki um að þetta hafi verið hrikaleg reynsla fyrir konuna en mig langar að segja ykkur sögu til samanburðar.
Hann Darri sonur minn varð eitt sinn fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu að bláókunnugir menn réðust á hann, þar sem hann var að kasta af sér vatni á bílastæði. Menn sem hann hafði engin orðaskipti átt við, menn sem enga skýringu gáfu á þessari hegðun fyrir rétti. Þeir börðu hann, spörkuðu í andlitið á honum og útilokað að segja til um hvort hann hefði lifað árásina af ef ekki hefðu verið vitni að glæpnum sem stöðvuðu þá. Hann slapp með brotna tönn, sprungið kinnbein, aðra augnmugjörð sprungna á mörgum stöðum og brot ásamt mörgum smásprungum í hinni. Ég hirði ekki um að telja mar og skrámur á öðrum líkamshlutum en andlitið á honum var afmyndað í margar vikur og hann þurfti morfínskyld verkjalyf til að þola við. Þetta voru síbrotamenn, annar þeirra hafði áður fengið á sig tvo dóma vegna tilefnislausra líkamsárása og það var vitanlega virt honum til refsiþyngingar. Hann fékk fjögurra mánaða fangelsi, hinn þriggja. Reyndar féll þessi dómur ekki fyrir íslenskum dómstól svo einhverjum getur þótt samanburðurinn ósanngjarn en ég sé ekki betur en að einnig Íslendingar sýni þó nokkuð gott umburðarlyndi gagnvart líkamsrárásum. Á Íslandi hefði þessum kónum sennilega engin refsing verið gerð, þar sem vafi lék á hvor þeirra það var sem lét bífurnar vaða í andlitið á honum. Puttaperrinn á Austurvelli hafði ekki komist í kast við lögin áður, hann fékk 18 mánaða fangelsi óskilorðsbundið. Eitt og hálft ár. Og svo talar fólk um kvenhatur og nauðgunarmenningu, að ofbeldi gegn konum sé umborið. Er það virkilega svo?
Er ástæða til að hafa áhyggjur af þessu?
Ég fagna því að konur á borð við Hildi Lilliendahl og Sóleyju Tómasdóttur skuli opinberlega lýsa yfir andstöðu sinni við öfuga sönnunarbyrði. Samt sem áður er full ástæða til að vera á varðbergi gagnvart öllu daðri við þessa óhugnanlegu hugmynd. Hættan er nefnilega raunveruleg. Svo raunveruleg að hvað sem grundvelli réttarríkisins og mannréttindasáttmálum líður, hafa Bretar þegar tekið upp öfuga sönnunarbyrði í kynferðisbrotamálum. Og nei, það er ekki eitt orð í lögum um öfuga sönnunarbyrði og ég skal raka mig sköllótta ef breska ríkið viðurkennir nokkurntíma það hugtak, en við skulum bara athuga það að Bandaríkjastjórn viðurkennir heldur ekki, að þær játningahvetjandi aðgerðir sem tíðkast í fangabúðunum við Guantánamo flóa, eigi nokkuð skylt við pyntingar.
Í Bretlandi taka menn mark á konum sem segjast hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi. Það hljómar svosem nógu vel, svo lengi sem hinn ákærði er raunverulega sekur. En þegar maður sem ekkert hefur af sér gert, stendur frammi fyrir því að vottorð um áfallastreituröskun (frá sálfræðingi, sem þvert á ótal dæmi um hið gagnstæða, telur útilokað að nokkur kona beri fram staðhæfulausar sögur um kynferðisbrot) telst fullnægjandi sönnunargagn, þá hlýtur maður að spyrja hvort það hafi virkilega verið þetta sem átt var við með því að gefa frásögn konunnar vægi. Þegar svo við bætist að fyrri kynhegðun hans er notuð gegn honum enda þótt hvergi megi minnast á kynhegðun konunnar, og að ásakanir annarra kvenna, enda þótt þeim hafi verið vísað frá dómi, eru lagðar fram til vitnis um skíthælshátt hans, þá stendur hann, hvað sem lagabókstafnum líður, frammi fyrir því að þurfa sjálfur að sanna sakleysi sitt enda þótt engar sannanir liggi fyrir um afbrot af neinu tagi. Það er nú bara þannig og því miður, þetta er svona vegna þess að of mörgu fólki finnst það bara allt í lagi.
Til eru menn sem hafa verið hreinsaðir af áburði um nauðganir, morð og fleiri alvarlega glæpi eftir að hafa sætt ákæru, dómi og margra ára refsingu, fyrir glæpi sem þeir frömdu ekki. Vonandi heyrir það til undantekninga, vonandi, en því miður, við bara vitum ekki hversu margir þeir eru sem í dag sitja saklausir í fangelsi. Og við getum áreiðanlega verið sammála um að kynferðisbrotamenn eigi ekki að ganga lausir en spurningin sem við verðum að hafa í huga, stöðugt og því fremur þegar reiðin kreppir á okkur hnefana og öskrið gerir sjálfstæða tilraun til þess að brjótast upp úr kviðnum, er þessi óþægilega, nagandi spurning sem samt sem áður er svo auðvelt að ýta frá sér, spurningin; hvað má það kosta?