Foreldrar sem búa ekki saman eiga fatlað sem hefur ekki forsendur til að fara með peninga. Þegar barnið fermist halda foreldrar sitthvora veisluna og barnið fær penignagjafir frá fjölskyldum og vinum beggja foreldra. Annað foreldrið leggur peningana inn á bók. Þegar hitt foreldrið er spurt hvað hafi orðið um peningana sem það tók við fyrir hönd barnsins getur það ekki svarað því. Á foreldrið sem lagði inn féð rétt á því að vita hvað varð um peninga barnsins og getur það krafist þess að peningurinn verði lagður inná sérstakan sparnaðarreikning?

☆☆☆

Þetta veltur á því hvernig forsjá er háttað. Foreldrar sem fara með forsjá eru fjárhaldsmenn barnsins. Barnið á sjálft rétt á því að ráðstafa gjafafé. Ef það hefur ekki forsendur til þess þá er það sá sem fer með forsjá sem tekur ákvarðanir um fjármál barnsins. Ef foreldrar fara saman með forsjá og koma sér ekki saman um þetta þá er hægt að krefjast breytingar á forsjá. Ef foreldri sem tók við gjafafé fyrir barnið hefur sóað því þá er það fjárdráttur og gæti komið til greina að kæra til lögreglu.

Það foreldri sem fer með lögheimili barnsins hefur vald til að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf þess, svosem hvar það gengur í skóla, hvaða tómstundastarf það stundar ofl. Ekki er minnst á fjármál barns í barnalögum en lögræðislög kveða á um að báðir forsjárforeldrar séu fjárhaldsmenn. Ég sé því ekki að lögheimili gefi foreldri rétt til að krefjast þess að hitt forsjárforeldrið afhendi féð eða leggi það inn á tiltekinn reikning heldur hlýtur foreldri með forsjá að ráða því sjàlft hvernig fé barnsins er ávaxtað ef ekki er samkomulag um það. Hinsvegar eiga báðir foreldrar rétt á upplýsingum. Ef foreldri getur ekki gert grein fyrir því hvar peningarnir eru og lagt fram sönnun um það þá er viðkomandi ekki hæfur til að fara með forsjá barnsins.

Ef hitt foreldrið fæst ekki til samstarfs þá er ekki eftir neinu að bíða með að sækja um breytingu á forsjá til sýslumanns. Það er alltaf hægt að draga hana til baka ef forsendur breytast en þar sem sýslumaður tekur málið ekki fyrir fyrr en hálfu ári eftir að beiðni berst er betra að draga það ekki. Svo er hægt að benda óábyrga foreldrinu á að fjárdráttur sé hegningarlagabrot og viðurlögin ekkert vægari þótt sé stolið frá barni.

Photo 129702440 © Gearstd | Dreamstime.com