Foreldrar mínir eru að fara á hjúkrunarheimili og kemur til greina að selja húsið og að við systkinin fáum fyrirframgreiddan arf. Ég með í erfiðri fjárhagsstöðu, meðal annars með miklar skattaskuldir og hef farið í gegnum árangurslaust fjárnámj. Getur sýslumaður tekið minn hlut í fyrirframgreiddum arfi upp í skuldir? Og ef svo er, hvað er til ráða ef eitthvað er?
☆☆☆
Skatturinn og aðrir kröfuhafar geta fengið sýslumann til að gera fjárnám í eignum þínum, þar á meðal í þeim arfi sem þú færð útgreiddan. Þú getur séð meira um þetta í lögum um aðför (nr. 90/1989).
Lögin bjóða ekki upp á þann möguleika að vernda arf gegn skuldheimtumönnum nema með kvöð um að ekki megi leita fullnustu í eign nema með kvaðabindingu (sjá 50. gr. erfðalaga). Arfleifendur þurfa þá að gera erfðaskrá þar sem fram kemur að ekki megi leita fullnustu í arfinum. Sýslumaður yrði að samþykkja þá ráðstöfun og kvöðin myndi falla niður við andlát þitt þannig að arfshluti þinna erfingja færi þá í skattinn. Hugmyndin með slíkri kvöð er sú að tryggja öryggi erfingja sem er illfær um að fara með fjármál sín sjálfur, t.d. vegna óreglu eða geðrænna vandamála og það alls ekki gefið að sýslumaður samþykki það þegar tilgangurinn virðist vera sá að vernda erfingja gegn skattaskuldum sem þegar hefur verið reynt að innheimta. Slík kvöð kæmi t.d. til álita þegar maður sem er líklegur til að fara óvarlega með fé erfir fasteign þar sem honum er ætlað að halda heimili eða þegar er tilefni til að skammta honum framfærslufé.
Það væri einnig hægt að skoða þann möguleika að systkini þín fái fyrirframgreiddan arf og að þú lýsir því yfir að þú hafnir arfi. Með því yrðu eignir foreldra þinna verndaðar gegn þeim sem eiga kröfu á þig, arfur félli aðeins til systkina þinna sem þyrftu þá að greiða erfðafjárskatt í samræmi við það.
Photo 9478429 © Ksim | Dreamstime.com