Er einhversstaðar hægt að sjá hvernig lögfræðingar eru að standa sig, t.d. hvað þeir hafa unnið mörg mál?

☆☆☆

Ég veit ekki til þess að upplýsingar um árangur málflutningsmanna hafi verið teknar saman. Að auki efast ég um að skrá yfir unnin dómsmál yrði gagnleg. Lögmaðurinn sem hefur aldrei tapað máli er hvergi til nema í sjónvarpsþáttum.

1 Ólík sérsvið

Í fyrsta lagi segir hlutfall unninna mála ekkert út af fyrir sig heldur yrði að bera lögmenn saman eftir málaflokkum til þess að eitthvert vit yrði í slíkum samanburði. Mjög mikil sérhæfing lögmanna er reyndar ekki jafn áberandi á Íslandi og í Ameríku. Það er þó algengt að lögmenn sinni tilteknum sviðum meira en öðrum og það er misjafnt eftir málaflokkum hversu miklir möguleikar eru á að dómur falli umbjóðanda í vil.

Það eru t.d. mun meiri líkur á lögmaður sem er aðallega í fasteignagallamálum sé með hátt hlutfall unninna mála en sá sem er aðallega í því að verja sakamenn. Sakamál og barnaverndarmál eiga alls ekki að fara fyrir dóm nema eftir rækilega rannsókn. Það er erfitt fyrir lögmann sem gætir hagsmuna almenns borgara að vinna slík mál vegna þess að sönnunarstaða hins opinbera er sterkari. Það er auðvitað ekki hægt að slá því föstu að lögmenn saksóknara séu betri lögmenn en verjendur þótt þeir hafi oftar betur í dómsmálum.

2 Árangur verður ekki alltaf mældur í dómsniðurstöðu

Í öðru lagi er ýmislegt annað en hlutfall unninna mála sem kemur til álita þegar árangur lögmanns er metinn. Samningalipurð og hæfileikar til að miðla málum eru ómetanlegir eiginleikar í fari lögfræðings og geta komið í veg fyrir dómsmál. Í einkamálum getur verið mun gæfulegra að mál fari ekki fyrir dóm heldur náist fram sættir. Í forsjármálum myndi ég t.d. benda mínum nánustu á að reyna að finna þolinmóðan lögmann sem leggur áherslu á sáttamiðlun frekar en grjótharðan lögmann sem leggur sig fram um að rústa gagnaðlia. Það er þó miklu líkegra að þú fréttir af þessum grjótharða.

Rökfesta og sannfæringarkraftur eru meðal þeirra eiginleika sem góðir lögmenn búa yfir en þeir birtast ekki aðeins í hlutfalli unninna mála. Frábær verjandi getur verið með blóðsekan skjólstæðing sem er útilokað að verði sýknaður en verjandinn nær þá kannski að draga fram sjónarmið sem leiða til refsimildunar. Snjall lögmaður getur á sama hátt náð fram viðunanlegri niðurstöðu á stjórnsýslustigi, t.d. fengið fram leiðréttingu á mati Sjúkratrygginga Íslands eða Tryggingastofnunar á bótarétti. Ef ætti bara að horfa á unnin dómsmál kæmi sá góði árangur hvergi fram.

Smellið hér til að skoða Facebooksíðu Hlítar

3 Góður lögmaður getur stundum náð árangri í málinu löngu síðar

Í þriðja lagi getur áhugl lögmanns á málinu, þrautseigja hans og vilji til að fylgja málinu eftir skipt sköpum. Íslenskir dómarar eru ekki fullkomnir. Þeir fella stundum dóma sem samræmast ekki stjórnarskrá og/eða alþjóðlegum mannréttindasáttmálum. Lögmenn sem eru tilbúinir til að berjast fyrir leiðréttingu á röngum dómum og/eðanlagatúlkun sem dómstólar hafa ekki viðurkennt eru þeir sem þoka fram breytingum á dómaframkvæmd. Það gera þeir með því að fara með málin eins langt og hægt er þegar ástæða er til þess, krefjast endurupptöku ef forsendur eru til þess og leita jafnvel til alþjóðlegra dómstóla eins og Evrópudómstólsins eða Mannréttindadómstóls Evrópu.

Það væri ekkert vit í að fara með öll mál eins langt og kerfið býður upp á því oftast eru dómar í samræmi við gildandi rétt. En þegar vafi leikur á um lagatúlkun eða réttmæti dómsniðurstöðu er engu að síður vafasamt að sá sem vann málið hafi endilega haft „betri“ lögmann.

Það að verjendur hafi ekki náð fram sýknu í Guðmundar- og Geirfinnsmálum árið 1980 gerir þá sannarlega ekki að lélegum lögmönnum. Sennilega hefði hvorki Alan Shore né Matlock náð fram sýknu í því máli. Nær væri að líta til þess stórkostlega árangurs að málið fékkst að lokum endurupptekið. Það hefði ekki gerst nema vegna þess að verjendur unnu af einurð, tjáðu sig opinberlega um málsmeðferðina löngu eftir að dómar féllu, tóku þátt í því með hinum dómfelldu, blaðamönnum og áhugafólki að halda almenningi vakandi, og þrýstu á um endurupptöku.

4 Kynntu þér lögmann áður en þú gengur til samninga

Það er því miður engin einföld leið til að bera saman gæði lögmanna. Ef þú ætlar að finna góðan lögmann, sem hentar þér, getur verið heppilegt að spyrja fólk sem hefur lent í svipuðum málum út í reynslu sína. Skynsamlegt getur verið að ræða við fleiri en einn lögmann áður en þú gerir verksamning. Það er líka sjálfsagt að spyrja lögfræðing út í þekkingu sína á málaflokknum, reynslu sína, áhuga og árangur. Þetta á reyndar við um viðskipti við alla sérfræðinga — það ert þú sem kaupir þjónustuna og þú átt rétt á almennilegum upplýsingum.

Mynd: © Photographerlondon | Dreamstime.com