Fjórir blaðamenn hafa nú stöðu sakborninga, grunaðir um brot gegn friðhelgi einkalífs. Þetta er mjög sérstakt. Venjulega höfða þeir einkamál sem telja blaðamenn hafa brotið gegn sér og almennt er erfitt að fá lögreglu til að rannsaka brot gegn friðhelgi einkalífs nema húsbrot, þjófnaður eða ofbeldi komi við sögu.
Blaðamenn virðast upp til hópa ganga út frá því að meint brot gegn friðhelgi einkalífs varði umfjöllun sakborninga um skipulagðar ofsóknir í garð blaðamanna í kjölfar Samherjamálsins. Rannsókn málsins feli í sér pólitískar ofsóknir lögreglu gegn blaðamönnum sem hafi unnið sér það eitt til óhelgi að hafa flutt sannar fréttir af lögbrotum og siðleysi stórfyrirtækis, auk þess að hafa fjallað um “skæruliðadeild Samherja”.
Það eru þó engar áreiðanlegar upplýsingar komnar fram um að lögreglurannsóknin snúist um fréttaflutninginn sem slíkan. Það er heldur ekki gefið að hér sé um að ræða valdníðslu af hálfu lögreglu. Ég er ekki að útiloka það, heldur að benda á það sem enginn marktækur fjölmiðill hefur fjallað um — að það kunni að vera réttmæt ástæða fyrir rannsókninni.
Brot gegn friðhelgi einkalífs
Brot gegn friðhelgi einkalífs eru af ýmsum toga. Þau geta m.a. falist í ærumeiðandi ummælum eða myndbirtingum. Slík brot geta líka m.a. falist í ólögmætri vöktun, heimildarlausri söfnun og dreifingu upplýsinga sem heyra undir persónuverndarlög eða í því að hnýsast í einkagögn.
Bloggarinn Páll Vilhjálmsson hefur fullyrt að fréttamenn hafi vitað að einhver ætlaði að gera Páli Steingrímssyni mein í þeim tilgangi að komast yfir símann hans. Þeir hafi nýtt sér þá vitneskju og að síminn hafi verið afritaður í Efstaleitinu, þar sem RUV er til húsa. Páll hefur ekki bent á nein gögn sem styðja þessa sögu og hún virðist nokkuð ævintýraleg. En sé eitthvað hæft í henni gæti það skýrt þá staðreynd að lögreglan er með til rannsóknar meint brot blaðamanna gegn friðhelgi einkalífs.
Reyndar er ekkert sérstakt sem bendir til þess að rannsóknin varði umfjöllun fjölmiðla um Samherja og “skæruliðadeildina” eins og haldið hefur verið fram. Það lítur miklu frekar út fyrir að það sé ólögleg gagnaöflun sem er til rannsóknar. Einn sakborninga í málinu, Þórður Snær Júlíusson, hefur gefið til kynna að rannsóknin beinist að brotum gegn 228. og 229. gr. alm. hgl. Þau lagaákvæði lúta ekki að óvæginni eða ærumeiðandi fjölmiðlaumfjöllun heldur ólögmætri gagnaöflun og dreifingu. Umræddum lagaákvæðum var af hálfu löggjafans ætlað að bregðast við stafrænu ofbeldi, einkum kynferðisofbeldi, og þeim veruleika að einkalíf manna fer nú að verulegu leyti fram í gegnum raftæki og internet. Það er þó ekkert nýtt að einkalíf fólks sé talið verðskulda vernd. Áður voru það dagbækur, einkabréf, persónulegar myndir og hirslur í einkaeigu sem talin var þörf á að vernda. Í dag erum við með slík gögn í símum og tölvum. Þótt samúð með fórnarlömbum stafræns kynferðisofbeldis hafi verið hvatinn að þessum lagabreytingum ná ákvæðin samkvæmt orðanna hljóðan til allra einkamálefna.
Er lögreglurannsókn réttlætanleg?
Í umræðum á samfélagsmiðlum hefur borið nokkuð á þeirri hugmynd að lögreglan hljóti að vera á villigötum enda geti símastuldur ekki talist brot gegn friðhelgi einkalífs. Lögreglan ætti því að vera að eltast við símaþjóf en láta heiðarlega blaðamenn í friði. En í þessu tilviki er ekki langsótt að flokka brottnám símans sem friðhelgisbrot. Til þess að brot teljist þjófnaður í skilningi laga þarf auðgunartilgangur að búa að baki. Hér virðist sem sími hafi verið tekinn, ekki í þeim tilgangi að nota hann eða selja, heldur aðeins í þeim tilgangi að ná í gögn og skila honum svo aftur. Þar með er ekki um að ræða auðgunarbrot heldur brot gegn friðhelgi einkalífs. Ef blaðamennirnir hafa vitað það eða tekið þátt í því þá er það hylming eða hlutdeild í því broti. Svo er líklegt að á símanum hafi verið gögn sem koma málinu ekkert við og það er ekkert útilokað að grunur um að viðkvæm persónuleg gögn væru enn í fórum blaðamanna hafi spilað inn í ákvörðun um að hefja lögrannsókn. Ef blaðamenn hafa ekki fengið í hendur gögn af símanum heldur læst tæki, þá er gæti það líka hafa átt þátt í þeirri ákvörðun.
Ef það er rétt að rannsóknin varði meint brot gegn 228. gr. og 229. gr. alm. hgl. þá er ekki hægt að fullyrða að um sé að ræða ofsóknir gegn blaðamönnum og sannleikanum. Samkvæmt 2. mgr. 229. gr. getur verið réttlætanlegt að afla gagna með því að verða sér úti um aðgang að gögnum annarra á tölvutæku formi. Ef blaðamenn hafa nýtt sér gögn af síma Páls Steingrímssonar þá gæti þetta undantekningarákvæði vel átt við. Umfjöllun fjölmiðla um “skæruliðadeild Samherja” snerist ekki um einkamál eins eða neins, heldur um áróður og ofsóknir gegn blaðamönnum. Sú umfjöllun átti sannarlega erindi við almenning.
Það er hinsvegar ekki hlutverk lögreglu að ákveða að óskoðuðu máli að gagnaöflun hafi verið réttlætanleg með tilliti til almannahagsmuna. Lögreglu ber, lögum samkvæmt, að rannsaka mál þegar fyrir liggur rökstuddur grunur um refsivert brot. Það er svo ekki fyrr en rannsókn lýkur sem tekin er afstaða til þess hvort brot hafi verið framið.
Engin rannsóknarblaðamennska
Páll Vilhjálmsson er ekki áreiðanlegur heimildamaður en sakborningar geta heldur ekki talist áreiðanlegir heimildamenn um rannsókn sem snýr að þeim. Ekkert bólar á hlutlausri fjölmiðlaumfjöllun. Kannski er ekki við því að búast þegar þeir fáu rannsóknarblaðamenn sem starfa á Íslandi eru ýmist með stöðu sakborninga eða nánir samstarfsmenn þeirra sem eru til rannsóknar.
Afleiðingarnar eru þær að stór hluti þjóðarinnar trúir því að yfirheyrslunar varði fjölmiðlaumfjöllun um Samherja og “skæruliðadeildina”, án þess að hafa annað fyrir sér í því en orð sakborninga um að umfjöllun þeirra hafi átt erindi við almenning. Annar hluti þjóðarinnar, en áreiðanlega mun minni, trúir því að blaðamenn hafi átt aðild að símaþjófnaði og mögulega morðtilraun. Reyndar voru það virtir blaðamenn sem lögðu Páli Vilhjálmssyni þau orð í munn að blaðamenn hefðu eitrað fyrir skipstjóranum og stolið símanum hans, mér vitanlega hefur hann ekki haldið því fram sjálfur. Þvert á móti tók hann fram í viðtali á Útvarpi Sögu að hann væri ekki að segja að blaðamenn hefðu eitrað fyrir Páli Steingrímssyni, heldur að þeir hefðu vitað að hann yrði “óvígur” á tilteknum tíma og að síminn hafi verið afritaður í Efstaleitinu. Einnig hefur hann sagt að einhver nákominn Páli skipstjóra hafi stolið símanum hans og sú lýsing á ekki við um blaðamenn. Það er því ýmislegt sem ekki er rétt eftir honum haft.
Ef fullyrðingar um að blaðamenn hafi vitað að skipstjórinn yrði “óvígur”, og að þeir hafi afritað gögnin með leynd, eru ekkert annað en heilaspuni Páls Vilhjálmssonar þá er það í sjálfu sér brot gegn friðhelgi einkalífs. Nánar tiltekið ærumeiðandi aðdróttun í garð þeirra blaðamanna sem stóðu að fréttaflutningi um “skæruliðadeildina”. Blaðamenn gætu þá átt bótakröfu á Pál vegna meiðyrða og á ríkið vegna tilefnislausra ofsókna lögreglu.
En ef einhver flugufótur er fyrir þessu þá breytir það ýmsu. Ef það er rétt að brotist hafi verið inn í símann að undirlagi blaðamanna, þá er það í meira lagi vafasamt. Blaðamenn hafa ekki slíkar heimildir, ekki frekar en þeir hafa heimild til húsleitar eða til að handtaka og yfirheyra þá sem grunaðir eru um að hafa brotið af sér. Það gæti þó verið réttlætanlegt ef blaðamenn hafa haft ástæðu til að ætla að á símanum væru vistaðar upplýsingar sem áttu erindi við almenning. En vissu þeir það? Getur verið að það sé einmitt það sem lögreglurannsóknin snýst um — hvort skilyrði þess að víkja frá meginreglu um friðhelgi einkalífs hafi verið uppfyllt?
Í þeirri umfjöllun sem fjölmiðlar hafa boðið upp á síðustu daga er ekkert á það minnst hvaða valkostir eru í stöðunni þegar maður leitar til lögreglunnar og skýrir frá grun um að gögn úr símanum hans séu í höndum óviðkomandi. Að auk gagna sem ætla megi að verði nýtt til fréttaflutnings megi gera ráð fyrir að óviðkomandi hafi nú afrit af einkasamtölum hans við fjölskyldu og vini, sjúkraupplýsingar, ljósmyndir úr einkasamkvæmum, upplýsingar um einkamál annarra í fjölskyldunni o.s.frv. Ætti lögreglan að neita að rannsaka hvort löglega hafi verið staðið að gagnaöflun og hvort gögnum sem ekki koma málinu við hafi verið eytt eða dreift?
Því miður er ekki útlit fyrir að neinn marktækur fjölmiðill ætli að skoða möguleikann á því að eitthvað annað og geðslegra en ofsóknir í garð blaðamanna séu helsti drifkraftur lögreglunnar. Ég árétta að ég er ekki að fullyrða neitt um atvik þessa máls. Það eina sem ég fullyrði er að fréttaflutningur af því er grunnur, einhliða, ofsafenginn og lítt til þess fallinn að upplýsa almenning um nokkuð sem máli skiptir.
Mynd © Georgejmclittle | Dreamstime.com