Mannanafnanefnd hefur úrskurðað að barn megi heita hljómsveitarnöfnum eins og Nýdönsk og Eló. Má barn þá ekki alveg eins heita Grýlurnar? Það er varla hægt að stræka á það út á fleirtöluna fyrst til eru nöfn eins og Úlfar og Steinar eða hvað? Ef Grýlurnar yrði ekki samþykkt væri þá hægt að fá nafnið Ragga Grýla viðurkennt?

☆☆☆

Vegir mannanafnanefndar eru illrannsakanlegir. Ástæðan er sú að svo rík hefð er fyrir mörgum nöfnum sem fela í sér undantekningar frá mannanafnalögum að það er varla hægt að spá fyrir um niðurstöðuna ef menn reyna að fylgja lögunum og taka um leið tillit til hefða.

Í íslensku er alls ekki hefð fyrir mannanöfnum með fleirtölu. Nöfn eins og Úlfar og Steinar eru ekki fleirtöluorð heldur eru þau með endingum eins og Ívar og Óttar. Það er heldur ekki hefð fyrir því í íslensku að mannanöfn taki greini. Þá er nafnið Grýla ekki á mannanafnaskrá en líklega myndu einhverjir halda því fram að það sé ónefni.

Hvað segja lögin?

Þar sem hefðir hjálpa okkur ekki að komast að niðurstöðu þurfum við að skoða lögin. Samkvæmt lögum um mannanöfn verður eiginnafn að geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Nafnið má ekki brjóta í bága við íslenskt málkerfi og það á að rita í samræmi við íslenskar ritreglur nema hefð sé fyrir öðru. Nafnið má heldur ekki vera nafnbera til ama. Álitamálin sem hér reynir á eru fjögur:

  • Koma lög í veg fyrir að gefa megi barni hljómsveitarnafn?
  • Koma lög í veg fyrir að gefa megi barni nafn með greini?
  • Koma lög í veg fyrir að gefa megi barni nafn í fleirtölu?
  • Myndi nafnið Grýlurnar verða barninu til ama?

Lögin segja ekkert um það hvort nefna megi barn eftir hljómsveit og eins og spyrjandi bendir á hefur mannanafnanefnd staðfest að ekkert sé því til fyrirstöðu að barn heiti sama nafni og hljómsveit ef það uppfyllir skilyrði laga.

Ekkert segir í lögum um það hvort nafnið megi vera með greini eða í fleirtölu. Orðið grýla tekur eignarfallsendingu. Í fleirtölu koma til greina tvær eignarfallsmyndir grýlanna og grýlnanna.

Líklegt verður að telja að mannanafnanefnd komist að þeirri niðurstöðu að þar sem ekki er hefð fyrir því í íslensku að mannanöfn séu höfð í lfleirtölu og taki greini þá brjóti það gegn íslensku málkerfi að láta barn heita Grýlurnar. Í úrkurði sínum í máli nr. 116/2021 hélt nefndin því nafn með ákveðnum greini bryti í bága við málkerfið en þar vildu foreldrar að barn þeirra bæri nafnið Geitin. Líklegt er að nefndin myndi tefla fram sömu rökum hvað fleirtöluna varðar. Nöfn eins og Úlfar og Steinar eru ekki dæmi um fleirtölu þótt endingin minni á fleirtöluendingu enda er beyging nafnanna ekki eins og fleirtölubeyging orðanna úlfur og steinn.

Nafnið grýlurnar brýtur vissulega í bága við nafnahefð. Sú túlkun mannanafnanefndar að það teljist sérstakur þáttur í málkerfinu hvernig farið er með nöfn er umdeilanlegt. Ég er ósammála þeirri túlkun því meginreglan er sú að þegar lög banna ekki eitthvað þá má það nema það gangi augljóslega gegn rétti eða mikilvægum hagsmunum annarra.

Yrði nafnið barninu til ama?

Eina lagaákvæðið sem ég sé að gæti staðið í vegi fyrir því að barn fengi nafnið Ragga Grýla er ákvæðið um að nafn megi ekki vera nafnbera til ama. Í lögskýringargögnum er tekið fram að þessu ákvæði eigi að beita varlega og sjaldan hefur á það reynt.

Í lögskýringargögnum segir að það séu „mikilvægir hagsmunir barna að þeim séu ekki gefin nöfn sem telja verður ósiðleg, niðrandi eða meiðandi, eins og t.d. Skessa, Þrjótur eða Hel.“ Þetta á við almennt. Ef út í það er farið getur maður haft ama af nafni sínu þótt ekkert sé að nafninu sem slíku. T.d. væri skiljanlegt að maður vildi hafna nafni afa sem hefði misnotað hann kynferðislega. Það mætti samt ekki banna foreldrum að gefa barni það nafn. Að sama skapi má reikna með að til sé fólk sem væri til í að heita Skessa eða Þrjótur en þar sem slík nöfn teljast, að áliti löggjafans, líkleg til að valda nafnbera ama mætti heldur ekki leyfa fullorðnum að taka upp þau nöfn. Það væri brot gegn jafnræðisreglu að leyfa einstaklingi að bera nafn sem öðrum er bannað.

Nú er Grýla skessunafn og gæti því fallið undir niðrandi nöfn samkvæmt lögskýringargögnum. Þetta er samt ekki eins einfalt og ætla mætti. Á síðasta ári felldi héraðsdómur Reykjavíkur úr gildi úrskurð mannanafnanefndar sem hafði hafnað nafninu Lúsífer á þeirri forsendu að það yrði nafnbera til ama (mál nr. E-7099/2020). Í dómi héraðsdóms segir að nefndin hafi aðeins lagt til grundvallar að nafnið sé eitt af nöfnum djöfulsins en ekki litið til annarra merkinga, svosem ljósberi og morgunstjarna, eða fjallað um hvaða skilning almenningur leggi í orðið „miðað við málvitund nú á tímum“. Málið var endurupptekið (úrsk. nr. 65/2021) og nefndin komst að sömu niðurstöðu, með þeim rökum að almenningur legði ekki merkingu á borð við ljósberi eða morgunstjarna í nafnið Lúsífer, heldur væri það almennt skilið sem eitt af nöfnum djöfulsins.

Ef ég ætti að reka mál fyrir fólk sem vill láta son sinn eða dóttur heita Ragga Grýla myndi ég benda á að tröllkonan Grýla er ekki lengur notuð sem barnafæla heldur er hún náskyld jólasveinum sem teljast engar illvættir lengur. Íslensk nafnahefð býður upp á vættaheiti svosem Álfur, Hulda og Dís. Allt eru þetta yfirnáttúrulegar verur og stundum viðsjárverðar og ætti ekkert að mæla gegn því fleiri slíkar verur fái sess í flóru íslenskra mannanafna. Einnig myndi ég byggja á því að enda þótt Grýla sé skessunafn, sé mun líklegra að nafnið Grýlurnar veki hugrenningartengsl við Röggu Gísla og aðra meðlimi hljómsveitarinnar en við mannætuna Grýlu og þess heldur þegar barnið heitir Ragga Grýla.

Hvort mannanafnanefnd og dómstólar myndu fallast á rök mín er þó ekki hægt að fullyrða.

Myndin er af plötuumslagi, Grýlurnar, sem kom út 1981