Á hvaða aldri mega skilnaðarbörn fara að ráða því sjálf hvort þau búa hjá móður eða föður og hvernig umgengnin er? Er hægt að neyða krakka til að fara í umgengni í annað sveitarfélag t.d. þegar er skólaball eða eitthvað annað sem væri leiðinlegt að missa af? Hvað getur foreldri gert til að hjálpa unglingum sem vilja breytingar á umgengni eða búsetu ef hitt foreldrið vill ekki hlusta á krakkana, án þess að það sé lagt út sem tálmun?
☆☆☆
Börn ráða því ekki sjálf hvar þau búa eða hvernig umgengnin er. Það er fullorðna fólkið sem ber ábyrgð á þeim ákvörðunum. Venjulega foreldrar en stundum taka barnaverndaryfirvöld slíkar ákvarðanir og stundum eiga dómarar síðasta orðið.
Þótt eigi að taka tillit til óska barna og unglinga eiga skilaboðin samt að vera þau að fullorðna fólkið stjórni þessu. Ástæðurnar fyrir þessu eru einkum tvær: Í fyrsta lagi hafa börn hafa ekki forsendur til að meta hvað þeim er fyrir bestu og þau eiga rétt á því að fullorðnir verndi þau og taki ábyrgð á velferð þeirra. Í öðru lagi er það svo að þegar samkomulag milli foreldra er ekki gott er mikil hætta á að börn lendi í hollustuklemmu. Það hefur oft mikla vanlíðan í för með sér og getur skaðað samband barnsins við annað foreldri sitt eða bæði.
Réttur barna til að tjá sig
Í barnarétti gildir sú regla að barn á rétt á því að tekið sé tillit til vilja þess í samræmi við aldur og þroska og að því gefnu að vilji þess samræmist hagsmunum þess. Þetta kemur t.d. fram í 3. mgr. 1. gr. barnalaga. Þetta þýðir samt ekki að barnið ráði neinu sjálft.
Ef mál fer fyrir sýslumann og jafnvel dómara þá á bæði að skoða vilja barnsins og líka á hverju sá vilji byggist. Ef barnið vill vera meira á heimili X af því að þar er keyptur skyndibiti 3svar í viku og leyfilegt að spila tölvuleiki til 2 á næturnar, þá er ekki víst að það yrði talið barninu fyrir bestu. En ef barnið vill vera meira á heimili X af því að það er svo mikið fyllirí á heimili Y eða af því að foreldri Y er alltaf að öskra á það, þá er mun líklegra að það myndi ráða úrslitum.
Það er eðlilegt að eftir því sem barnið þroskast hafi það sterkari skoðanir á því hvar það vilji vera og ég held að enginn fagmaður myndi leggja til að unglingur yrði kúgaður til að búa hjá, eða umgangast foreldri sem hann vill ekkert með hafa. En ef barnið er farið að stjórna því sjálft hvar það dvelur hverju sinni er hætta á því að það fari að spila með foreldrana, fara bara til mömmu ef það fær ekki það sem það vill hjá pabba og öfugt.
Hvað á foreldri að gera?
Ef barnið vill breytingar á búsetu og/eða umgengni, og hefur sæmilega skynsamlegar ástæður fyrir því, þá á það rétt á því að sé hlustað á það. Það getur verið ástæða til að foreldri stuðli að breytingum á umgengni en það er slæmt fyrir barnið og getur verið merki um skerta forsjárhæfni ef barnið upplifir að annað foreldrið standi með því gegn hinu.
Það er nokkuð algengt að umgengni breytist þegar börn komast á unglingsaldur, einkum ef foreldrar búa í sitthvoru skólahverfinu. Ástæður eru þá ekki endilega þær að samband barnsins við „umgengnisforeldrið“ sé í ólagi heldur er það oft samband við vini og félagslífið sem ræður afstöðu barnsins. Þegar sú staða er uppi getur verið rétt að taka tillit til óska barnsins en þótt einhverjar breytingar verði á umgengni er venjulega best að hún sé regluleg en ekki að barnið komi og fari eins og því hentar.
Ef er ekki hægt að ná samstarfi við hitt foreldrið er hægt að fara fram á úrskurð sýslumanns um breytingar á umgengni. Áður en úrskurður er kveðinn upp fer fram sáttameðferð og þá fær barnið líka tækifæri til að tjá sig.
Mynd: ID 263210716 @ Dmitry Marchenko | Dreamstime.com
